Alþjóða-heilbrigðismála-stofnunin (WHO) hefur sent frá sér nýtt áhættumat á GSM -farsímum gagnvart krabbameini. Fjallað er um þessa óþægilegu staðreynd í fjölda erlendra fjölmiðla. Farsímar flokkast nú í sama áhættuflokk og blý, hreinsiefni, klóróform og DDT skordýraeitrið alræmda svo eitthvað sé nefnt. Það voru 31 vísindamenn frá 14 löndum á vegum stofnunarinnar sem sendu frá sér þetta mat fyrir hönd stofnunarinnar. Áhættugreiningin byggist á endurskoðun þeirra vísindarannsókna sem gerðar hafa verið á þessu sviði. Heilaæxli eru algengari meðal þeirra sem nota farsíma mikið. Símarnir gefa frá sér útgeislun sem getur skaðað erfðaefnið DNA á frumustigi og ýtir undir vöxt krabbameina. Ein af þeim rannsóknum sem áhættumatið byggist á sýndi fram á að 40% aukna hættu á ákveðnu heilakrabbameini meðal þeirra sem nota símana mikið. Meðalnotkun þeirra sem flokkuðust undir það að nota símana mikið var 30 mínútna notkun á dag yfir 10 ára tímabil. Telja verður líklegt að margir falli í þann flokk í dag þar sem hálftíma heildarnotkun á dag þykir engin ósköp.

Fjölmiðlar hafa fjallað takmarkað um þessa alvarlegu niðurstöðu þessarar virtu stofnunar. Niðurstöðurnar þykja óþægilegar fyrir þessa nýju en þægilegu tækni. Farsímaiðnaðurinn veltir miklum upphæðum og því eru miklir hagsmunir í húfi. Farsímafyrirtækin auglýsa sömuleiðis mikið í öllum helstu fjölmiðlunum og það kann að útskýra af hverju lítið hefur borið á upplýsandi umfjöllun um málið.

(Who.int, júní 2011. The New York Times, 1. júní 2011. The Business Insider 31. maí 2011)