Þekkt er að sum fitubrennsluefni valda miklum aukaverkunum, sérstaklega við ranga notkun. Líklegt er að einhver slík bætiefni séu í umferð hér á landi.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjana hefur innkallað ákveðnar tegundir bætiefna sem innihalda usnic-sýru. Sum þeirra innihalda einnig efnin Garcinia Cambogia, Chromium og Camelia Sinensis sem grunur leikur á að valdi lifrarbilun.

Svonefnd usnic-sýra er í sumum bætiefnum sem ætluð eru til léttingar, þ.e.a.s. brennslu-bætiefnum.  Sífellt fleiri spjót beinast gegn usnic-sýru þar sem hún er talin hættuleg heilsunni. Tilgangur bætiefnaframleiðenda með því að setja usnic-sýru í bætiefnin er að nýta örvunaráhrif hennar. Hún veldur hitamyndun í líkamanum sem skilar sér í meiri hitaeiningabrennslu og efnaskiptahraða og þar af leiðandi fitubrennslu. Usnic-sýran er í plöntu sem heitir Usnea barbata lichen. Plantan sú er af ætt þelinga sem eru aðallega þörungar og sveppir sem vaxa á klettum og timbri. Usnic-sýran örvar sundrun orkuefna í hvatberunum, en hvatberarnir eru nokkurs konar orkumiðstöð allra frumna. Sundrunin gerir það að verkum að í stað þess að orkan sem fæst úr fæðunni sé geymd sem fituforði, er líklegra að líkaminn losi hana út sem hita. Lyf á borð við amfetamín, efedrín og ninitrofenól valda sambærilegri sundrun í hvatberunum og þekkt er að þessi efni valda miklum aukaverkunum, sérstaklega við ranga notkun. Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) hefur tilkynnt um 23 tilfelli lifrareitrunar sem rakin er til usnic-sýru í brennslu-bætiefnum. Í ljósi þess er nefnd sem fjallar um eiturefni fyrir hönd bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins að endurskoða leyfisveitingu til að nota usnic-sýruna og sömuleiðis plöntuna Usnea barbata lichen í bætiefni. Hugsanlegt er að bætiefni sem innihalda þessa sýru eða plöntuna verði innkölluð.

Notendur þessara fitubrennsluefna eru hvattir til þess að kynna sér innihald sinna bætiefna ef grunur leikur á að um væri að ræða eitthver af ofangreindum efnum.
(Journal Environmental Science and Health, vefútgáfa: útgefið í október 2008)
(World J Gastroenterol  2008 December 7; 14(45): 6999-7004)