Þegar reiknivélin er tekin fram og reiknað hversu miklu við brennum í æfingum verður útkoman ekkert sérlega hagstæð. Ef einungis er horft í þær tölur sem við brennum á meðan æfingu stendur er eiginlega ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að æfingar séu ekki sérlega skilvirk brennsluaðferð – ekki það að eitthvað betra sé í boði. Flestir brenna um 10 hitaeiningum á mínútu þegar æft er undir hóflegu álagi. Það að ganga rösklega eða skokka rólega myndi flokkast undir hóflegt álag. Það þýðir að þú brennir um 200 hitaeiningum með því að skokka í 20 mínútur. Það tekur örfáar sekúndur að úða í sig súkkulaði sem inniheldur mun meiri orku en þetta. Samt sem áður er það nú þannig að nánast allir sem ná að létta sig um mörg kíló og viðhalda léttingunni í mörg ár eiga það sameiginlegt að æfa nánast á hverjum degi.

Það tekur örfáar sekúndur að úða í sig súkkulaði sem inniheldur mun meiri orku en 20 mínútna puð á hlaupabretti.

Ef æft er af kappi er talið að æfingarnar stuðli að aukinni brennslu umfram hvíldarbrennslu eftir að æfingunum sjálfum lýkur. David Nieman og félagar við Appalachian Ríkisháskólann í Bandaríkjunum komust að því að fólk brenndi 190 hitaeiningum til viðbótar æfingabrennslunni eftir að hafa hjólað af kappi í 45 mínútur. Ákafar æfingar brenna hitaeiningar á meðan æfingunum stendur og eftir að þeim lýkur og því eru þær afar mikilvægar sé ætlunin að léttast. Þegar á heildina er litið reynist útreikningurinn með reiknivélinni hagstæðari en þegar einungis er horft á þær hitaeiningar sem brennt er á meðan æfingunni stendur.

(Medicine Science Sports Exercise, 43: 1643-1648, 2011)