Viðtal:

Smári Harðarsson hefur um árabil keppt í vaxtarrækt og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir að vera í góðu formi allt árið. Oft einkennir það keppendur í vaxtarrækt að þyngjast mikið á milli móta, en Smári heldur sér í formi allt árið. Smári sem býr í Vestmannaeyjum gaf sig á tal við FF og veitir okkur hér örlitla innsýn í það hvernig hann fer að því að halda sér í formi.

Hversu oft í viku æfirðu? Ég æfi sex sinnum í viku allt árið. Þetta er orðinn partur af deginum og ég fer alltaf á æfingu eftir hádegi. Það er orðinn fastur liður í deginum að æfa. Þegar leti kemur upp í hugann og ég fer að hugleiða hvort ég nenni nokkuð að fara á æfingu, þá er ég yfirleitt kominn með lóðin í hendurnar áður en ég veit af og þá er of seint að hætta við æfinguna. Ég er örfáar mínútur að koma mér út í í bíl og af stað út í Hressó þar sem ég æfi áður en tækifæri gefst til að hætta við.

Ætlarðu að stefna á einhver mót á næsta ári? Ef það verður Mastersflokkur á Norðurlandamótinu sem verður haldið hér á næsta ári, þá er aldrei að vita nema ég kíki á það í gamni. Ég veit ekki hvort ég komi til með að keppa á næsta Íslandsmóti um Páskana, en það væri fróðlegt að sjá hvernig mér gengur á móti útlendingum. Ég keppi nú fyrst og fremst af því ég hef gaman af þessu.

Við hvað starfarðu? Við Sigurlína konan min rekum efnalaugina Straum í Vestmannaeyjum og svo er ég kafari líka. Í því starfi vinn ég mest fyrir skip og höfnina. Þurfa menn ekki að vera í góðu formi til þess að starfa sem kafarar? Oft þarf að taka á honum stóra sínum og vissulega hef ég hugleitt hvernig menn sem eru í engu formi geta staðið í þessu. Það hlýtur að vera erfitt. Bara það eitt að ganga upp bryggjutröppurnar með 80-90 kg á bakinu getur tekið verulega á.

Áttu uppáhalds æfingar? Það eru eiginlega æfingar sem ég ætti ekki að taka. Bekkpressa og fluga með handlóðum eru í uppáhaldi, en ég má eiginlega ekki stækka á mér kassann. Ég væri alveg til í að láta taka sitthvort kílóið af kassanum og setja á neðra bakið. Þar er minn helsti veikleiki. Svo hef ég mjög gaman af upptogi. Hvort það séu einhver fitnessgen í mér sem ráða því veit ég ekki, en áður en ég hætti þessu keppnisstandi ætla ég að keppa í einni fitnesskeppni svona til gamans.
Hvað ertu yfirleitt þungur utan keppni? Ég er alltaf skorinn og fitna aldrei. Vinnan sem ég er í er þannig að það er erfitt að fitna. Ætli ég sé ekki um 97 kg. Menn eru stundum að grínast með það að ég gæti sleppt því að borða saltaðan mat, rakað mig og smurt einhverju á mig og þá gæti ég keppt eftir tvo daga. Mér líkar þessi lífsstíll og ég hef aldrei skilið þá vaxtarræktarmenn sem standa í öllum þessum æfingum, eru flottir í einn mánuð á ári, en eru með bumbuna út í loftið ellefu mánuði á ári. Maður er vissulega egóisti eins og allir þessir kappar, en mér finnst sóun að vera bara í flottu formi einn mánuð á ári. Stefnan er að þegar maður er að bursta tennurnar fyrir framan spegilinn, ber að ofan, að vera sáttur við sig þegar farið er að sofa. Þá fer ég að sofa sáttur. Það verður sífellt meira gaman eftir því sem maður eldist að halda þessu formi.

Hvaða bætiefni notarðu? Ég er að nota Phosphagen og kreatínblöndu í dag. Svo er ég mikill skyr-maður. Annars borða ég bara allt það prótein sem ég kemst yfir og passa mig á að borða tvær góðar prótínmáltíðir á dag. Stundum fæ ég ógeð á prótíndrykkjum, en þá eyk ég skyrið  því fæ ég aldrei leið á. Ég borða helst prótín á milli ellefu á morgnana til fimm á daginn en borða helst ekkert á kvöldin. Mig langar ekki til að vera þyngri og er sáttur við þann massa sem ég hef. Starfið mitt er mjög líkamlega erfitt og ef ég yrði þyngri yrði maður mun þunglamalegri.

Hvar sérðu sjálfan þig eftir 10 ár? Vá…! andstyggileg spurning. Vonandi á lífi við góða heilsu og ekki spurning – í góðu formi. Ég ætla mér nefnilega aldrei að hætta að æfa og gera tilraun á sjálfum mér og sjá hversu lengi ég get haldið skrokknum í svona góðu formi. Sjá þannig hvenær elli-kerling fer að vinna á mér. Mér finnst ég ekki vera orðinn gamall og finn ekki fyrir neinum breytingum, en finnst þó helst að ég þurfi meiri svefn en áður.