Æfingar auka getu vöðva til þess að brenna fitu, þú brennir ekki meira yfir daginn þó að þú takir létta æfingu.Goðsögnin um að með því að taka æfingu snemma dags sé brennslan meiri það sem eftir er dagsins er misskilin.

Það er vöðvastærðin sem ræður hinsvegar miklu um það hversu miklu brennt er yfir daginn. Æfingar auka ekki brennslu það sem eftir er sólarhringsins samkvæmt endurskoðun ýmissa rannsókna sem gerð var á vegum Edward Melanson og félaga við læknaháskólann í Colorado, Denver.

Æfingar brenna fitu einfaldlega með því að eyða orku í formi hitaeininga og afleiðing styrktaræfinga er stækkun vöðva sem aftur leiðir til hraðari efnaskipta vegna þess að stórir vöðvar auka sólarhringsbrennsluna. Líkaminn notar fitu sem orku þegar orkueyðslan verður meiri en neyslan.

Niðurstaðan er því sú að æfingar sem byggjast á hóflegum átökum brenna ekki meiri fitu nema fólk borði færri hitaeiningar og minni fitu heldur en brennt var í sjálfum æfingunum. Æfingar eru því ekki alhliða lausn á offituvandamálinu, þær hafa hinsvegar margvísleg jákvæð áhrif á efnaskipti, vöðva og öndunarfæri líkamans.