Slakaðu á og bumban hverfur. Eða hvað?

Hægt er að mæla magn kortísól-hormónsins í hári. Samkvæmt því eru þeir sem komnir eru á miðjan aldur stressaðri en aðrir. Kortísól-hormónið er nefnilega vísbending um streitu. Magn þess í hári miðaldra fólks er meira en hjá öðrum aldurshópum. Þessi sami aldurshópur er einnig með flest aukakíló og hæsta líkamsþyngdarstuðulinn (BMI). Einnig mesta mittismálið.

Viðvarandi streita eykur magn kortísóls í blóðrásinni með þeim afleiðingum að blóðþrýstingur eykst og tilhneiging verður til kviðfitusöfnunar. Fitusöfnun í kringum hjarta, lifur og ýmis líffæri eykst einnig í takt við aukið kortísól.

Kortísól veldur líka aukinni matarlyst hjá sumum. Það er talið gerast vegna streituáhrifa sem eru breytileg á milli manna. Streitan veldur því að sumir léttast á meðan aðrir þyngjast. Tilhneigingin til að framleiða kortísól er sömuleiðis breytileg á milli manna. Viðvarandi streita sem stafar af fjárhags- eða hjónabandserfiðleikum veldur kviðfitusöfnun hjá sumum samkvæmt mælingum. Með því að mæla magn kortísóls er hægt að sýna fram á samhengi þarna á milli.
(Obesity, 25: 539–544, 2017)