Við vitum í dag að kolvetnaríkt fæði eykur þol. Sömuleiðis hefur lengi verið vitað að kolvetnalítið mataræði dregur úr þoli um fjórðung hið minnsta. Líkaminn notar kolvetni sem aðalorkugjafa þegar æfingaálagið fer yfir það að vera 65% af hámarksáreynslu. Vönduð rannsókn á vegum Martin Gibala við McMaster Háskólann í Kanada sýndi fram á að ef æft er þegar magn vöðvaglýkógens er lítið í vöðvunum leitast líkaminn við að nota prótín sem orku. Það þykir óheppilegt að líkaminn noti prótín sem orku þar sem markmiðið með æfingunum var jú að byggja upp vöðva en ekki að rífa þá niður. Ennfremur er nýmyndun prótína mun minni eftir æfingar en heppilegt þykir ef vöðvaglýkógen er lítið.

Þegar við borðum kolvetnaríkan mat hlaðast vöðvarnir af glýkógeni sem líkja má við skjótfengnar orkubyrgðir. Vísindamennirnir framkölluðu glýkógenlágt ástand með því að blanda saman æfingum og kolvetnalágu mataræði. Niðurstöður þessarar ransókna hafa ákveðna þýðingu fyrir líkamsræktarfólk vegna þess að margir eru á frekar kolvetnalágu fæði þegar skorið er niður. Ef glýkógenið verður óheppilega lítið í vöðvunum er orðið nánast ógjörningur að viðhalda vöðvamassanum í niðurskurðinum. Þegar skorið er niður er ætlunin að losna við fitu, en ekki endilega vöðva. Ef menn æfa mikið og ætla að skera sig niður er þar af leiðandi ekki heppilega að gleyma sér í of miklu prótíni. Kolvetnin verða að vera til staðar.

(Journal of Applied Physiology, 109: 431-438, 2010)