Valdís Hallgrímsdóttir og Lárus Mikael eru Þrekmeistarar Íslands 2002 eftir hörkuspennandi keppni í Íþróttahöllinni á Akureyri. Alls voru mættir 92 keppendur á Þrekmeistaramótið sem er metþátttaka. Valdís sem með sigri sínum varði þrekmeistaratitilinn frá því á síðasta ári fór í gegnum brautina á tímanum 21.50 sek sem er talsverð bæting frá síðasta ári þegar hún fór brautina á 23.33 sek. Valdís varð ennfremur þrekmeistari í flokki 39 ára og eldri.
Lárus Mikael frá Ísafirði varð Þrekmeistari í einstaklingsflokki karla, en hann fór brautina á tímanum 19.50 sem er besti tíminn í Þrekmeistaranum fram til þessa. Á Þrekmeistaramóti Reykjavíkur fyrr á þessu ári fór Lárus Mikael brautina á 22.54 og síðasta Íslandsmóti á 26.22 sem sýnir hversu miklar bætingar er um að ræða og frábæran árangur hjá Lárusi.
Í einstaklingsflokki karla yfir 39 ára sigraði Þorsteinn Hjaltason sem fór brautina á 20.11 sek sem jafnframt kom honum í þriðja sæti í heildarkeppninni.
Í liðakeppninni var mikil spenna á milli liða enda fjölmargir þátttakendur og liðin úr ýmsum áttum. Sigurvegarar í liðakeppni kvenna urðu Ljónynjurnar frá æfingastöðinni Bjargi á Akureyri en þær fóru brautina á tímanum 17.26 sem er besti tíminn hjá kvennaliði til þessa. Í liðakeppni karla sigraði liðið World Class Austurstræti sem fór brautina á tímanum 16.03. Mikil barátta var meðal efstu liða í liðakeppni karla enda voru fjögur efstu liðin með tíma innan við 16.42 sem sýnir hve jöfn keppnin var.
Í liðakeppni kvenna eldri en 39 ára sigruðu Klappstýrurnar frá æfingastöðinni Bjargi á Akureyri á tímanum 17.59 sek sem er frábær tími og dugði þeim í þriðja sæti í opnu keppninni. Í liðakeppni karla eldri en 39 ára sigraði liðið Tannlæknarnir og endajaxlarnir sem einnig eru frá æfingastöðinni Bjargi. Eins og nafnið gefur til kynna eru tannlæknar í liðinu, en þeir fóru brautina á tímanum 16.16 sem ennfremur kom þeim í annað sætið í opnu keppninni.