Vísindamenn vita að svefn skiptir miklu máli fyrir vöðvauppbyggingu en hafa ekki getað útskýrt nákvæmlega hvers vegna. Svefnskortur veldur þreytu og eirðarleysi. Brasilískir vísindamenn hafa haldið því fram að svefn sé mikilvægur fyrir úrvinnslu líkamans á prótínum og þar sé að finna mikilvægi svefns fyrir íþróttamenn. Svefninn sé þannig undirstaða vöðvauppbyggingar og viðhalds. Ennfremur er vitað að svefn flýtir fyrir bata þegar meiðsli eru annars vegar. Svefnleysi veldur niðurbroti vefja sem marka má í því að meira mælist af sundrunarhormónum eins og kortísóli og minna af vefaukandi hormónum eins og testósteróni. Þannig veldur svefnleysið því að niðurbrot vöðva verður meira en eðlilegt þykir. Svefn skiptir íþróttamenn því miklu máli. Niðurstöður hafa jafnvel sýnt fram á að svefnleysi valdi vöðvarýrnun hjá íþróttamönnum sem komnir eru yfir miðjan aldur.

(Medical Hypotheses 77: 220-222, 2011)