Það gleymist stundum að ein helsta forsenda þess að ná árangri í ræktinni er að mæta. Sitjandi heima í stofusófa yfir hundraðasta þættinum í nýjustu hasarmyndaseríunni í sjónvarpinu skilar ekki betra útliti, betri líðan og meiri hreysti. Nýlegar rannsóknir sýna fram á að æfingar undir miklu álagi í nokkrar mínútur í senn geta skilað jafn miklum árangri og æfingar í tvo til þrjá tíma í senn ef álagið er lítið. Auðvitað getur verið heppilegt að taka afslöppunar-pásur annað slagið fyrir framan sjónvarpið og hið sama á við um æfingarnar sjálfar. Það skiptir hinsvegar máli hversu mikið er lagt á sig í æfingunum. Fáir æfa öllum stundum undir sama álaginu vegna þess að það getur verið þreytandi til lengdar. Heppilegra er að breyta álaginu. Í breskri rannsókn er sýnt fram á að fólk njóti þess betur að taka stuttar og erfiðar æfingar, en langvarandi léttar sem standa lengur. Mun líklegra er að fólk fáist til að mæta yfir höfuð á æfingarnar ef þær taka ekki langan tíma og eftir stuttar en erfiðar æfingar líður fólki betur eins og áður sagði. Þannig fæst fólk frekar til að mæta í æfingasalinn, en það er jú forsendan fyrir einhverjum árangri yfir höfuð – að mæta.

Álagsmiklar æfingar með hléum henta vel í þetta fyrirkomulag. Slíkar æfingar geta falið í sér að taka t.d. sex lotur af 30 sekúndna löngum æfingum við hámarksálag á stigvél eða þrekhjóli með fjögurra mínútna hvíld á milli. Þetta æfingakerfi er stutt og erfitt – en virkar.

(Journal Sports Science, vefútgáfa 14. febrúar 2011)
(Journal Strength and Conditioning Research, 24: 3352-3362, 2010)