Sigurkarl að vonum ánægður með verðlaunin á Evrópumótinu. Formið á Sigurkarli er vægast sagt frábært. Jafnaldrar hans mega minna sig á að svona formi er hægt að vera í 60 ára.

Sigurkarl Aðalsteinsson varð Evrópumeistari í sínum flokki í vaxtarrækt í dag. Sigurkarl keppti í dag á Evrópumóti IFBB – Alþjóðasambands líkamsræktarmanna sem haldið er í Santa Susanna á Spáni.

Sigurkarl Aðalsteinsson á Íslandsmótinu 2019.

Sigurkarl keppti í flokki 55 ára og eldri undir 75 kg. Þetta er merkilegur áfangi þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingar eignast Evrópumeistara í vaxtarrækt. Þetta er líka í fyrsta skipti sem karlmaður nær titli af þessari stærðargráðu á þessum mótum.

Sigurkarl sem er 60 ára keppti nýverið á Íslandsmótinu sem fór fram í Háskólabíói og er í sínu besta formi. Flokkurinn sem hann keppti í var mjög öflugur en Sigurkarl kom afar vel undirbúinn til keppni og stóð uppi sem sigurvegari í flokknum.

Á morgun keppir Sigurkarl í heildarkeppninni við sigurvegara í öðrum vaxtarræktarflokkum. Fjórir íslenskir keppendur eru að keppa á Evrópumótinu. Auk Sigurkarls eru það Vijona Salome, Alda Ósk Hauksdóttir og Ana Markovic. Þau munu stíga á svið á morgun og um helgina.

Fitness.is og aðstandendur IFBB hér á landi óska Sigurkarli til hamingju með þennan frábæra árangur.