Offita minnkar hormónaframleiðslu og eykur hættuna á hjartaáfalli

Eitt hlutverk vaxtarhormóna í líkamanum er niðurbrot fitu og nýting hennar sem orkuforða hjá bæði börnum og fullorðnum. Offita er vítahringur. Mikil offita dregur úr framleiðslu vaxtarhormóna sem torveldar fitubrennslu.

Rannsókn sem gerð var við Læknadeild Harvardháskóla sýndi fram á samband á milli lækkunar hormónagildis og minni þéttleika LDL „vonda kólesterólsins“ og HDL „góða kólesterólsins“. LDL – lágþéttni lípóprótín eykur hættuna á hjartasjúkdómum þar sem þau tengjast útfellingu kólesteróls innan á og í slagæðaveggjum. Oftast nefnd æðakölkun. HDL – háþéttni-lípóprótín er talið sjá um að flytja kólesteról úr blóðrásinni og en það er þéttara í sér en LDL. LDL „vonda kólesterólið“ er talið sérlega hættulegt þegar þéttleiki þess minnkar. Eðlisþyngd og þéttleiki lípóprótína ráða miklu um eðli og eiginleika þeirra.

Feitt fólk mælist með lægra gildi vaxtarhormóna og minni þéttleika LDL og HDL sem ýtir undir hjartasjúkdóma.  Fituforði líkamans skiptir þar af leiðandi miklu máli fyrir blóðfitubúskapinn.
(Endocrinology, 76: 220-227)

Svona fitar streita

Viðvarandi streita sem stafar af fjárhagsvandræðum, skilnaði eða tilvistarkreppu af einhverju tagi getur aukið myndun líkamans á hormónum sem nefnast glúkókortíkóíð (GK).
Langvarandi hátt gildi þessara hormóna bælir ónæmiskerfið og á stóran þátt í að valda þeim einkennum sem fylgja ofþjálfun hjá íþróttamönnum sem æfa óhóflega mikið. Hátt gildi GK stuðlar einnig að offitu með aukinni hitaeininga- og fituneyslu. Streita eykur sækni í mat.

Ennfremur er hugsanlegt að hormónin valdi aukningu í fjölda fitufrumna (hyperplasia) sem gerir erfiðara að takast á við offituna.

Skammt er síðan augu vísindamanna beindust að sambandi glúkókortíkóíða og offitu og því liggur ekki fyrir hvernig þessi hormón stuðla að offitu.
(Metabolism Clinical Experimental 60: 1500-1510)