Á fundi sem undirritaður sat með forsvarsmönnum IFBB á Spáni í síðustu viku kom fram að ætlunin er að keppa í nýjum flokkum í karlafitness strax á Evrópumótinu sem haldið verður í Búdapest í vor. Keppt verður í þremur flokkum sem skiptast eftir hæð keppenda. Í hverjum hæðarflokki er leyfileg ákveðin hámarksþyngd keppenda. Því hærri sem keppandi er því þyngri má hann vera, en ekki yfir ákveðnu hámarki eins og áður sagði. Þessu til viðbótar verða teknar fimm stöður eins og gert er í vaxtarræktarkeppnum. Er þar um að ræða sömu stöður og hinar sjö skyldustöður í vaxtarræktinni nema hvað ekki eru teknar hliðarstöður.

Hérlendis mun þessi keppnisgrein hafa mikla þýðingu fyrir keppendur í karlafitness þar sem þetta opnar möguleika á að við sendum keppendur erlendis á Evrópu- og heimsmeistaramót. Fram til þessa hefur eingöngu verið keppt í erlendis karlaflokki þar sem gera þarf danslotu, en það hefur ekki hugnast íslenskum körlum.

Hvort keppt verður í þessum flokki á næsta Íslandsmóti sem haldið verður um Páskana á Akureyri liggur ekki fyrir á þessari stundu, en það þykir líklegt.