Ákveðnar frumur í æðaveggjunum framleiða nituroxíð sem gegnir stóru hlutverki við stjórnun blóðflæðis um líkamann. Framleiðsla á nituroxíði er lykillinn að góðri efnaskiptaheilsu vegna þess að það gegnir mikilvægu hlutverki við að flytja súrefni til vefja líkamans. Áhrifa nituroxíðs gætir víða. Það hefur áhrif á kyngetu og það hversu orkumikil við erum svo eitthvað sé nefnt. Vísindamenn við Emory Læknaháskólann komust að því að skýringin á því að regluleg hreyfing og æfingar auka verulega líkurnar á að lifa af hjartaáfall hefur með nituroxíð að gera. Líkaminn framleiðir nituroxíð á meðan æfingum stendur og magn þess eykst í æðum og sér í lagi hjartanu. Líkaminn er vissulega alltaf að framleiða nituroxíð en áhrifin af æfingum verða þess valdandi að meira magn nituroxíðs er framleitt og það er m.a. til staðar í hjartanu. Nituroxíð er þannig talið eiga að minnsta kosti þátt í þeim verndandi áhrifum sem æfingar hafa á hjartað og blóðrásina. Fleiri þættir hafa vissulega þar áhrif. Verndandi áhrif nituroxíðs á heilbrigði hjarta- og blóðrásarkerfisins eru hinsvegar tímabundin sem þýðir að fólk þarf að æfa reglulega. Ef hætt er að æfa dvína áhrif nituroxíðs.

(Circulation Research, útgefið á vefnum 4. Maí 2011)