Orðatiltækið „No pain – no gain“ hefur lengi verið haft í hávegum meðal vaxtarræktarmanna. Í því felst að æfa og lyfta fram að og yfir sársaukamörk, oft umfram getu. Tilgangurinn er að leggja það mikið álag á vöðvana að þeir neyðist til að stækka.

Jeff Willardsson við Háskóla Austur-Illinois fjallaði um kosti og galla þessarar lífsspeki í nýlegum skrifum. Margar rannsóknir hafa beinst að því að skoða hver sé heppilegasti fjöldi setta í æfingakerfum en fáar rannsóknir hafa skoðað áhrif þess að taka á fram að uppgjöf og hver áhrif þess eru á vöðvastækkun og styrk.

Þjálfun fram að uppgjöf virkar vel vegna þess að hún krefst aðkomu fleiri ferla innan líkamans en vanalega og teljast þá með taugar og vefir.

Þjálfun fram að uppgjöf gerir vel þjálfuðum vaxtarræktarmönnum, crossfitturum, kraftlyftingamönnum og í sjálfu sér flestum íþróttamönnum kleift að ná árangri í þjálfun sem lyftir þeim upp á nýtt getuplan. Kúnstin er að skipta þessum ofur-æfingum niður þannig að komist sé hjá ofþjálfun. Ofþjálfun er vandamál sem beita þarf kænsku til að forðast.

Þjálfun fram að uppgjöf virkar vel vegna þess að hún krefst aðkomu fleiri ferla innan líkamans en vanalega og teljast þá með taugar og vefir. Ofurálag hvetur líkamann til framleiðslu vaxtarhormóna og insúlín-vaxtarþátturinn fer í gang.

Þegar markmiðið er að auka styrk þarf að auka álag umfram getu en þeir sem stefna á vöðvamassa þurfa að gæta þess að leggja ekki of mikla áherslu á margar lyftur. Mikill vöðvamassi helst í hendur við mikinn styrk og til að ná honum þarf af og til að taka á þungu lóðunum í dimmustu skúmaskotum ræktarinnar. Þar gerast stórir hlutir. Þarna þarf hinsvegar að hafa í huga að ef æft er of oft fram að uppgjöf eru meiðsli handan við hornið og jafnvel ofþjálfun. Ofþjálfun er eitur fyrir sálina líka þar sem hún dregur úr hvatanum og ýtir undir viljaleysi og almenna uppgjöf. Svefn, hvíld, gott mataræði og gott skipulag á æfingakerfum þarf því að koma til.

(Journal Strength Conditioning Research, 21:628-632)