SalatFólk sem leggur mikið á sig til þess að halda hitaeiningunum í skefjum prísar sig oft sælt með að fara á salatbarinn í stað þess að panta safaríka steik og kartöflu drukknaða í smjöri þegar komið er á veitingastað. Þarna er hins vegar blekkingin eins og hún gerist best. Í boði eru jafnan hin margvíslegustu salöt með öllu tilheyrandi. Salatbarirnir eru hins vegar orðnir skrípamynd af hollustufæði nútímans. Vilji einhver fá sér spergilkál og pasta þá er það löðrandi í kryddolíu eða sósu. Úr egginu ágæta er búið að gera eggjasalat þar sem majones er uppistaðan. Vandasamt er að komast yfir salatblað sem ekki er löðrandi í sósu
Svipað hefur gerst með jógúrtið okkar góða sem getur talist gulls ígildi sem hollustuvara. Framleiddar eru hinar margvíslegustu jógúrttegundir sem í hefur verið settur sykur í miklum mæli, bragðefni og ýmislegt fleira. Það er því alls ekki sjálfgefið að allt sem heitir jógúrt sé næringarlega jafn gott. Á salatbarnum er ekki óalgengt að það grænmeti sem sloppið hefur við að vera sett í sósur eða majones sé sett í skál fulla af vatni. Það leiðir hins vegar til þess að vatnsleysanleg næringarefni eins og kalíum tapast. Hvar er þá hinn gullni meðalvegur kynni þá einhver að spyrja? Þó hann sé erfitt að feta svo ekki bregði útaf, þá er vitað mál að þær fæðutegundir sem ekki er búið að vinna mikið, eru betri en þær sem gengið hafa í gegnum mörg vinnsluþrep vegna þess að þá er vitað hvað haft er í höndunum. Það gamla góða gildir að því minna sem matvaran er unnin því betra. Næringarefni glatast við flesta vinnslu.