Byrjendum þykir flestum auðveldara að taka hnébeygju í Smith–vél í stað þess að nota lausa stöng. Margir þjálfarar kjósa hnébeygju með lausri stöng fram yfir Smith–vélina fyrst og fremst vegna þess að átakið á rassvöðvana er meira. Á móti kemur að ekki þarf aðstoðarmann sem stendur við þegar miklar þyngdir eru teknar í Smith–vélinni. Munurinn liggur einnig í því að hreyfiferillinn er beinn og fastur í vélinni en frjálsari í hnébeygjunni.

Kanadískir vísindamenn undir forystu Shane Schwanbeck við Háskólann í Saskatchewan mældu álagið sem þessar æfingar mynda á lærvöðvana. Skemmst frá að segja er álagið á sjálfa lærvöðvana svipað. Smith–vélin virðist einangra átakið meira vegna þess að átakið í henni einskorðast meira við stærstu lærvöðvana á meðan átakið sem myndast í hnébeygjunni er dreifðara og nær til fleiri og smærri vöðvahópa í neðrihluta líkamans. Heildarátakið reyndist 45% meira í hnébeygju með lausri stöng en Smith–vél. Æfingarnar höfðu þannig álíka árangur í för með sér fyrir lærvöðvana, en hnébeygjan hefur vinningin sem meiri alhliða–æfing. Það er engin tilviljun að hnébeygja að hætti kraftlyftingamanna hefur verið kölluð móðir-allra-æfinga. Það er líklega engin stök æfing sem byggir upp betri lær- og rassvöðva heldur en hnébeygjan. Átakið nær sömuleiðis til maga- og bakvöðva.

Helsta ástæðan fyrir því að sumir þjálfarar forðast Smith–vélina er að erfiðara er að halda bakinu beinu í henni. Ferillinn er beinn eins og áður sagði og það getur verið óheppilegt í sumum æfingum.

Sama á við um axlapressu sem gerð er í Smith–vél. Ferillinn er beinn sem getur verið óheppilegt fyrir axlirnar. Laus lóð mynda meira átak á miðlæga axlavöðvann heldur en vélin samkvæmt mælingum. Lítill munur mælist hinsvegar á átaki fram- og afturvöðvans eftir því hvort laus lóð eða Smith–vél er notuð. Jared Coburn og félagar við Ríkisháskólann í Kaliforníu í Bandaríkjunum mældu álag þessara tveggja æfinga á axlavöðvana og komust að því að bekkpressur með lausum stöngum mynduðu meira átak á miðlæga axlavöðvann en Smith–vélin.

(Journal Strength Conditioning Research, 23: 2588-2591, 2009 og 24:779-784, 2010)