Besti árangur sem íslenskur keppandi hefur náð í keppni erlendis

Kristín Kristjánsdóttir hafnaði í fimmta sæti á heimsmeistaramótinu í fitness sem fór fram um helgina í Antalya í Tyrklandi.

Þetta er án vafa besti árangur sem íslenskur keppandi hefur náð á erlendri grundu fram til þessa í líkamsrækt.

Kristín keppti í flokki 35 ára og eldri á heimsmeistaramótinu, en í hennar flokki voru 22 keppendur. Flestir keppendurnir eru sigurvegarar frá sínu heimalandi sem gefur til kynna styrkleika keppninnar.

Haldin eru hin ýmsu mót í fitness og vaxtarrækt víða um heiminn en heimsmeistaramótið er án vafa sterkasta mótið. Þessi frábæri árangur Kristínar verður því að skoðast í því ljósi að í hennar flokki er ekkert annað mót sem er sambærilegt að styrkleika. Að jafnaði keppa um 300 keppendur frá 40-60 löndum á heimsmeistaramótinu.

Kristín og Sigurður Gestsson kepptu bæði á heimsmeistaramótinu. Sigurður sem keppti í vaxtarrækt eldri en 50 ára komst ekki í úrslit í sínum flokki að þessu sinni.

Líklega hefur enginn íþróttamaður, sama hvaða íþróttagrein hann tilheyrir náð betri árangri á þessu ári heldur en Kristín gerði að þessu sinni á heimsmeistaramótinu.

Minnum á myndasafnið okkar hér á fitness.is.

x