Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að fyrstu sex mánuðina í niðurskurði léttast menn meira á kolvetnalágu mataræði en á blönduðu eða fitulitlu fæði. Þetta á þó einungis við til skamms tíma og ekki munar stórkostlegu þarna á milli. Sumir íþróttamenn hafa þar af leiðandi aðhyllst kolvetnalágt mataræði sem orkugjafa til æfinga. Það þarf hinsvegar ekki að þræta um að þetta eru mistök. Fjölmargar rannsóknir undanfarna áratugi hafa sýnt fram á að kolvetni eru nauðsynlegur orkugjafi fyrir æfingar þegar átök fara yfir 65% af hámarksgetu. Þol minnkar verulega á kolvetnalágu mataræði, sérstaklega þegar æft er í erfiðum æfingalotum með hléum.
Fjölmargar rannsóknir undanfarna áratugi hafa sýnt fram á að kolvetni eru nauðsynlegur orkugjafi fyrir æfingar þegar átök fara yfir 65% af hámarksgetu.
Með rafmælingum á vöðvaátökum kom í ljós í brasilískri rannsókn að kolvetnalágt mataræði dró úr afkastagetu í miklum átökum hjá mönnum sem voru í góðu formi. Rafmælingarnar gáfu nákvæmlega til kynna hversu mikil átök voru á vöðvunum. Athyglisvert þótti að þeir sem tóku þátt í rannsókninni fannst átökin vera svipuð óháð því á hvaða mataræði var æft. Þeir sem voru á kolvetnalágu mataræði leið ekki verr og þeir héldu að þeir væru að taka vel á. Samkvæmt mælingunum gátu þeir sem voru á kolvetnalága mataræðinu hinsvegar ekki tekið jafn mikið á og hinir. Það veit ekki á gott þar sem samhengi er á milli árangurs og átaka. Enginn vafi leikur á að kolvetni eiga heima í mataræði íþróttamanna sem vilja æfa vel.
(International Journal Sports Nutrition Exercise Metabolism, 24: 532-542, 2014)