Um næstu helgi fer fram keppni undir heitinu „Best of the Best“ sem fram fer í Dubai í Sameinuðu Furstadæmunum. Kristjana H. Gunnarsdóttir Íslandsmeistari kvenna og Helena Ósk Jónsdóttir keppa þar í einstaklingsflokki í einvígi við bestu stallsystur sínar í heiminum.Með þeim Kristjönu og Helenu í för eru Vikar Karl Sigurjónsson og Bergþór Magnússon frá líkamsræktarstöðinni Lífstíl í Keflavík. Þau munu einnig öll keppa í liðakeppni. Þar sem þau eru bara fjögur þarf einn meðlimur liðsins að framkvæma fjórar æfingar. Hringurinn sem er farinn í þessari keppni er ögn frábrugðinn Þrekmeistaranum hérna heima og er líklega erfiðari þar sem Kristjana áætlar að vera þremur til fjórum mínútum lengur með hringinn heldur en hér heima. Það verður allt annað en auðvelt fyrir íslendingana að hoppa úr kuldanum í steikjandi hitann sem er í Dubai. Við hjá fitness.is erum hinsvegar viss um að þau standa sig vel.
Í auglýsingum um keppnina kemur fram að hámark hennar verði einvigi Kristjönu og besta breska keppandans, Jacqui Macquisten, en hún á besta tímann þar í landi og hefur sigrast á mörgum erfiðum andstæðingum. Kristjana á því við erfiðan andstæðing að etja sem eflaust er vanari þessum hitum heldur en hún, en við hér á fitness.is erum fullviss um að hún stendur sig vel. Þess má geta að komnar eru myndir í myndasafnið frá keppninni 7. okt.