Eins og fram kom á blaðamannafundi heilbrigðisráðherra hefur verið sett samkomubann á Íslandi í fjórar vikur. Í ljósi þessa og óvissu um framvindu mála vegna Covid-19 veirunnar er Íslandsmóti IFBB í fitness- og vaxtarrækt frestað fram í nóvember. Ætlunin var að mótið færi fram í Hofi á Akureyri um páskana.
Eðlilega fylgja þessu mikil óþægindi fyrir keppendur sem hafa nú þegar varið mörgum vikum í undirbúning en fátt er um valkosti í þessari stöðu.
Nú þegar hefur sambærilegum mótum IFBB í Noregi og Danmörku verið frestað eða þau felld niður. Alþjóðasambandið sendi hinsvegar tilkynningu frá sér í morgun um að enn stæði til að halda Evrópumótið í Santa Susanna sem hefst 5. maí og dagskrá móta í maí og síðar stendur. Keppendur sem hafa stefnt á að keppa á Evrópumótinu eða öðrum mótum síðar á árinu eru því hvattir til að halda sínum undirbúningi áfram.
Sú óvissa sem fylgir því ástandi sem er í þjóðfélaginu þessa dagana mun líða hjá, spurningin er einungis hversu langan tíma það tekur.
Þeir keppendur sem hafa nú þegar greitt keppnisgjald munu að sjálfsögðu fá endurgreitt. Fyrirspurnir sendist á siggi@fitness.is.