Mataræði fyrir fitnessmót er vísindagrein út af fyrir sig – eða svo mætti ætla ef marka má allar kenningarnar sem heyra má í ræktinni.

Keppendur eða þjálfarar þeirra taka út salt, kolvetni og vatn eftir kúnstarinnar reglum dagana og vikurnar fyrir mót til að ná bestu vöðvaskilunum daginn sem stigið er á svið. En þarf þetta að vera svona flókið?

George Farah er þjálfari í heimsklassa sem hefur tekið að sér að þjálfa marga af bestu vaxtarræktarmönnum heims og ætti því að vita hvað hann er að gera. Hvað sem mönnum þykir til íturvaxinna vaxtarræktarmanna koma er óumdeilt að þeir lesa ekki bækur um megrunaraðferðir. Þeir hlusta ekki á órökstutt rugl um það hvernig best sé að léttast eða komast í form. Þeir hafa ítrekað þurft að standa á sviði og opinbera þekkingu sína – eða þjálfara sinna með því að sýna árangurinn, standandi á keppnisskýlunni einni fata. Sýna þekkingu sína í verki. Það liggur því vel við að leita í viskubrunn George Farah varðandi það hvað gera skuli dagana og vikurnar fyrir mót.

Að sögn George fær hann oft spurningar um það hvernig haga skuli mataræðinu skömmu fyrir mót. „Þetta er góð spurning, en vandamálið er að ég get ekki svarað henni á einfaldan máta“ segir George. „Flestir eru að leita að galdralausn sem klikkar ekki og hægt er að nota aftur og aftur til að komast í hið fullkomna form. Þetta er bara ekki svona einfalt en ef svo væri yrði ég fyrstur til að segja þér frá galdraformúlunni.“

Og hann heldur áfram: „Margir gleyma að nota heilbrigða skynsemi. Það sem ég á við er að ef þú ert í flottu formi þegar tvær vikur eru í mót er ljóst að þú hefur staðið þig vel og allt er eins og það á að vera. Ef svo er ekki er líklegt að þú fallir í þá gildru eins og margir gera að ganga fram að þér síðustu eina eða tvær vikurnar fyrir mótið – þegar þú ættir í raun að slaka á og hægja á þér til þess að líkaminn fái tækifæri til að hvílast, ná þéttleika og ná þessu þurra og harða útliti á réttum tíma.

Ef staðan er þannig að þú ert í formi tveimur vikum fyrir mót þarftu einfaldlega að halda forminu, ekki flækja hlutina og breyta allskonar atriðum á ýktan hátt eins og ég sé svo marga gera – sem endar með því að þeir mæta flatir og vatnsmiklir á svið. Það eru engir tveir keppendur eins og það er ekki til ein uppskrift sem virkar á alla.

Stærstu mistökin sem ég sé fólk gera er að hætta algerlega að borða salt sem endar með ósköpum. Ef þú hefur vanið líkamann við salt mánuðum saman er ekki gáfulegt að sleppa saltinu allt í einu og halda að þú verðir betri. Satt að segja hef ég ekki hugmynd um það af hverju sumir keppendur gera þetta. Sama á við um fólk sem borðar ekki salt en notar síðan helling af salti í hleðslu. Ertu að grínast? Svo undrast fólk af hverju það var í miklu betra formi nokkrum dögum fyrir mót – og líklega líka nokkrum dögum eftir mótið.

Þú verður að nota heilbrigða skynsemi. Ég ítreka það vegna þess að það er nákvæmlega málið. Tökum dæmi: Ef þú ert þegar búinn að minnka við þig kolvetni og ert bara að borða hóflegt magn af þeim, segjum í fyrstu þremur máltíðunum yfir daginn, þá þarftu bara að bæta kolvetnum í kolvetnalausu máltíðirnar síðustu tvo þrjá dagana til að ná flottu formi. Það fer síðan eftir því hversu flatur eða þurr þú ert hvernig þú þarft að breyta kolvetnunum og vatnsdrykkjunni en aldrei öfgakennt. Það að bæta við sig kolvetnum þýðir meiri vökvi þannig að þú þarft ekki að drekka jafn mikið og þú ert búinn að vera að gera – þannig verður þú bæði með mestu vöðvastærðina og þurr. Sama á við ef hitt er málið. Ef þú ert flatur þarftu að bæta við kolvetnum og vatni og ef þú ert orðinn mjög hlaðinn þarftu að hægja á þér sem er hægt að gera með því að bæta fitu í mataræðið.

Þú sérð á þessu hversu flókið þetta getur verið,“ segir George að lokum. „Gerðu þér greiða. Ef þú getur ekki áttað þig á því hvernig þetta er gert skaltu leita til einhvers sem veit hvað hann er að gera – hafðu bara í huga að öfgar eiga aldrei við og notaðu heilbrigða skynsemi.
(Muscular Development viðtal, febrúar 2014.)