Átök á neðri hluta líkamans eru um 45% minni þegar teknar eru hnébeygjur á óstöðugu undirlagi en þegar þær eru teknar á gamla góða gólfinu.

Undanfarin ár hafa æfingar sem byggjast á jafnvægi og óstöðugu undirlagi náð miklum vinsældum meðal þjálfara. Kenningin þar að baki er að stórir gúmmíboltar, jafnvægisbretti og æfingar sem krefjast mikils jafnvægis um leið og tekið er á þjálfi svonefnda kjarnvöðva í hryggnum meira en aðrar æfingar.

Hægt er að mæla átök vöðva með svonefndum vöðvarafritum. Samkvæmt niðurstöðum Jeffrey McBride og félaga við Appalachiaháskólann í Norður-Karólínu voru átök á neðri hluta líkamans um 45% minni þegar teknar voru hnébeygjur á óstöðugu undirlagi en þegar hnébeygjurnar voru teknar á gamla góða gólfinu.

Vöðvaátökin voru mæld með vöðvarafrita sem virkar þannig að fylgst er með taugarafvirkni í vöðvunum. Þessi mæliaðferð er merkileg og sérstök vegna þess að vöðvaátök eru grundvallaratriði í vöðvastækkun og styrktaraukningu. Eftir því sem átökin eru meiri má ætla að vöðvastækkun og styrktaraukning sé meiri.

Vissulega auka æfingar á óstöðugu undirlagi kjarnvöðvastyrk. Þeir sem leita að hámarksárangri í vöðvastækkun og styrkleika eru hinsvegar á þeirri vegferð að þurfa að beita hámarksátökum annað slagið til að knýja fram árangur. Kjarnvöðvaæfingar henta ákveðnum hópum en ekki endilega vel þjálfuðu fólki sem er að stefna á hámarksárangur í kraftaíþróttum eða vaxtarrækt. Kjarnvöðvaæfingar hafa ýmsa kosti og því er tilvalið að blanda þeim saman við aðrar æfingar. Það er þó samkvæmt þessum niðurstöðum ekki skynsamlegt að treysta á þær þegar stefnt er að hámarksárangri í styrk og vöðvamassa.

(Journal Strength Conditioning Research, 20:915-918)