Það varð allt vitlaust þegar þvagfærafræðingurinn Dr. Irwin Goldstein sagði fyrir nokkrum árum: „það eru bara til tvennskonar karlkyns-hjólreiðamenn: þeir sem eru getulausir og þeir sem eiga eftir að verða getulausir.“ Umræðurnar í kjölfar þessarar grimmu staðhæfingar hafa farið um víðan völl og valdið miklum heilabrotum og deilum meðal hjólreiðamanna. Hugsanlegt er þó að Dr. Goldstein hafi haft rétt fyrir sér.
Í dag hafa verið gerðar á þriðja tug rannsókna sem bendla hjólreiðar við löskun á þvagfærakerfinu í bæði körlum og konum. Allt að 91% hjólreiðamanna finna fyrir dofa á kynfærasvæðinu eftir hjólatúra sem hafa staðið í nokkra klukkutíma. Um fjórðungur hjólreiðamanna á við risvandamál að stríða, en það er fjórfalt hærra hlutfall en hjá jafnöldrum sem stunda hlaup eða sund.
Hjólreiðar trufla blóðflæði til limsins og þvagrásarinnar og þrengja að taugum í náranum. Sumar þessara rannsókna hafa fyrst og fremst sýnt fram á að þegar hjólreiðar eru stundaðar í miklum mæli finna menn til dofa eða óþæginda, en það er ekki það sama og getuleysi. Framleiðendur hafa því einbeitt sér að því að framleiða sæti sem draga úr álagi á þetta viðkvæma svæði. Vandamálið er að slík sæti eru ekki vinsæl hjá þeim sem hjóla mjög mikið eða stunda keppni. Það eru hinsvegar helst þeir sem þurfa á þeim að halda.
Hjólreiðamenn eru sömleiðis í aukinni hættu á að fá langtíma – óumbeðna standpínu vegna blóðtappa í limnum. Standpína sem stafar af þeim orsökum er varasöm og þarf að meðhöndlast strax vegna þess að hún getur leitt til varanlegs getuleysis.
Einn af þeim sem ekki er sammála fullyrðingu Dr. Goldstein um getuleysi hjólreiðamanna er Dr. William D. Steers, forstöðumaður Þvagfæradeildarinnar við Háskólann í Virginíu. Hann lætur hafa eftir sér að: „þessi hjólreiðaumræða sé komin út fyrir öll skynsemismörk. Í Kína hjóla 90% allra karlmanna og þeir virðast ekki eiga í vandræðum með að fjölga sér.“
(Journal Sexual Medicine, 7: 2346-2358, 2010)