Guðrún H. Ólafsdóttir
Guðrún H. Ólafsdóttir

Nafn: Guðrún H. Ólafsdóttir
Fæðingarár: 1986
Bæjarfélag: Reykjavík
Hæð: 162
Þyngd: 60
Keppnisflokkur: Fitness kvenna -163
Heimasíða eða Facebook: https://www.facebook.com/profile.php?id=644220517
Atvinna eða skóli: Íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að keppa?

Mér vantaði einhver markmið með æfingunum mínum, var komin með leið á að mæta á æfingar og var í raun ekki með nein markmið sem ég stefndi að. Setti mér því markmið að æfa fyrir mót og þá varð strax skemmtilegra að æfa og ég fór að sjá meiri tilgang með því. Eftir fyrsta mótið var ekki aftur snúið.

Keppnisferill:

1.sæti Bikarmeistaramót IFBB -163cm 2011
8.sæti Norðurlandamót IFBB -163cm 2011
6.sæti Arnold Classic Europe -163cm 2011
6.sæti Oslo Grand Prix -163cm 2011
1.sæti Íslandsmeistaramót -163cm 2011
1.sæti Bikarmeistarmót IFBB -163cm 2008
6.sæti Norðulandamót IFBB Opinn fl.kv. 2008
2.sæti Oslo Grand Prix -163cm 2008
3.sæti Íslandsmeistaramót IFBB +163cm 2008
2.sæti Íslandsmeistarmót IFBB ungl.fl. 2007
2.sæti Bikarmeistarmót IFBB -164cm 2006
1.sæti Íslandsmeistaramót IFBB ungl.fl. 2006
2.sæti Íslandsmeistaramót IFBB ungl.fl. 2005
2.sæti Íslandsmeistaramót IFBB ungl.fl. 2004

Hverjir eru helstu stuðningsaðilar þínir?

Sportlíf styrkir mig með fæðubótaefnum, hjá þeim fæ ég öll þau fæðubótaefni sem ég þarf, þeir eru með þrjár verslanir í Reykjavík, þær eru staðsettar í Glæsibæ, Holtagörðum og Smáratorgi. Þeir eru með mjög breitt úrval og endalaust margar bragðtegundir af próteinu, svo maður á aldrei að þurfa að fá leið.

Hvaða æfingakerfi hefur virkað best fyrir þig?

Ég æfi alltaf 6 daga vikunar í um það bil klukkutíma í senn, yfirleitt set ég þetta þannig upp að ég lyfti einn vöðvapart á dag en tek fætur tvisvar sinnum, þá með meiri áherslu á rass og aftanverð læri á annarri æfingunni. Ég reyni svo að rótera þessu reglulega og breyta um æfingar og endurtekningar. Þegar nálgast mót þá fer ég að bæta inn morgunbrennslum, byrja kannski á þrem á viku en eyk svo eftir því sem þörf er á. Á þessum tíma eyk ég líka við plyometric æfingar fyrir fætur og einkennist þá laugardagsæfingin oft af slíkum æfingum.

Hvernig er mataræðið?

Á niðurskurðinum er mataræðið frekar einfalt en ég passa að fá öll þau næringarefni sem ég þarf. Það byggist að mestu á fisk (sem ég borða á hverju einasta kvöldi), kjúkling, brokkoli, haframjöli, eggjum, sætum kartöflum og möndlum.

Í morgunmat fæ ég mér alltaf eggjahvítur með höfrum og kanil, þetta á við hvort sem ég er í niðurskurði eða ekki, þetta er einfaldlega svo gott.

Næstu máltíðir yfir daginn innihalda kjúkling, brokkoli og sætar. Fyrir æfingu er það aftur haframjöl og smá prótein og eftir æfingu fæ ég mér Stacker prótein með vanillubragði og smá kanil út á, það bragðast eins og grjónagrautur og ég bíð alltaf spennt eftir að borða það. Í kvöldmat er það fiskur og brokkoli og fyrir svefninn þá fæ ég mér Casein prótein frá SciTec sem ég hræri með vatni og bý til búðing úr, og er það uppáhaldsmáltíð dagsins, hver vill ekki geta fengið sér súkkulaðibúðing á hverju kvöldi.

Ég tel aldrei hitaeiningar, ég fer frekar eftir tilfinningu og líðan og stækka þannig eða minnka matarskammta. Ég passa líka vel upp á vítamínin, tek fjölvítamín, omega 3 og d-vítamín á hverjum degi.

Hvaða bætiefni hefur virkað best fyrir þig?

Casein (mjólkur) prótein – þá fer ég ekki svöng að sofa 🙂

Hvaða bætiefni ertu að taka, hve oft og hve mikið?

Ég tek whey prótein frá Stacker, set smá á hafrapönnsluna á morgnanna til að fá gott bragð, fæ mér svo hálfa skeið fyrir æfingu og eina eftir æfingu. Casein prótein tek ég fyrir svefn og glutamine 3-4x yfir daginn.

Seturðu þér markmið?

Ég er ekki nógu dugleg að setja mér markmið, þau koma jú inn á milli en ég mætti vera duglegri við að setja mér langtíma- og skammtímamarkmið. Ég reyni þó alltaf að fylgja einu markmiði og það er að gera mitt besta. Ef ég veit að ég geri mitt besta í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur þá get ég ekki verið svekkt eða ósátt ef ég næ ekki öllum markmiðum akkurat á réttum tíma.

Hvað er það sem hvetur þig áfram á erfiðum dögum?

Erfiðu dagarnir eru mun færri nú en áður, líklega vegna þess að ég settist niður og hugsaði með mér af hverju ég væri að þessu, hvað ég fengi út úr því og fyrir hvern ég væri að þessu. Í dag er ég að gera þetta fyrir mína ánægju, þetta er áskorun fyrir mig sjálfa og það gerir einhvernveginn hvern dag auðveldari og skemmtilegri.
En líkt og hjá öllum þá koma að sjálfsögðu erfiðir dagar inn á milli, þá er gott geta bara viðurkennt fyrir sjálfri mér að í dag eigi ég erfiðan dag og að það sé allt í lagi, næsti dagur verði betri. Er líka orðin rosalega góð að stoppa sjálfa mig af og gera mér grein fyrir því ef ég er farin að láta erfiðu dagana mína bitna á öðrum, það er mjög góð tilfinning.
Fjölskydan mín og vinirnir hafa líka alltaf staðið við bakið á mér í þessu og það er gott að hafa slíkt hvatningarlið með sér.

Hver er uppáhalds keppandinn þinn erlendis?

Hmm ég er eiginlega alltaf að skipta um skoðun á þessu. En fyrsti erlendi keppandinn sem ég þekkti var Monica Brant, fékk lánaða videospólu (já videospólu) með undirbúning hennar fyrir mót og hún hefur eiginlega verið smá uppáhald síðan.

Hver er uppáhalds keppandinn þinn hér heima?

Ranný vinkona mín er náttla sú flottasta. En uppáhaldið mitt er eiginlega hún Kristín Kristjánsdóttir, útgeislunin frá henni er gríðaleg, yndæl, góð og vinaleg, já hún er bara frábær manneskja.

Uppáhalds lögin í ræktinni?

Ég er mesti lúði þegar kemur að tónlist, ekki nema tvö ár síðan ég uppgötvaði snilldina að æfa með i-pod, fyrir það var ég bara ein með eigin hugsunum. I-podinn minn er með samansafn af alls konar tónlist og ég þekki eiginlega engin nöfn svo ég segi bara pass á þetta 🙂

Ef þú ættir að gefa öðrum keppendum eitt ráð, hvað væri það?

Það eru til endalaust margar leiðir til þess að skera niður, byggja upp eða hvað það nú er, og ekki einhver ein sem er rétt eða hentar öllum. Veldu þér einn þálfara til að hlusta á og farðu eftir því sem hann segir. Ekki blanda saman hugmyndum allra í kringum þig. Það bæði getur hamlað árangur og valdið þér sjálfri/sjálfum hugarangri því þú veist ekkert hvað er „rétt“ og hvað er „rangt“.