Hefurðu farið til læknis vegna bakverks og hann ráðlagt þér að gera einhverjar æfingar til að styrkja bakið eða ná af þér aukakílóunum? Ef svo er þá hefurðu sennilega kynnst því hve erfitt það er að æfa einn og án hvatningar frá öðrum. Sumu fólki finnst verulega erfitt að gera einhverjar æfingar ef það er enginn sem það æfir með eða rekur það áfram við æfingarnar. Þetta þekkja allir þeir sem taka sig til einn daginn og kaupa einhver æfingatæki, handlóð, teygjur eða mittistrimmara og gera svo lítið annað en að horfa á tækin og stinga þeim inn í skáp eftir fyrstu vikuna.

Þetta á sér ósköp eðlilegar orsakir. Þegar fólk þarf að fara að gera eitthvað eins og það að fara að æfa í fyrsta skipti á ævinni, þá er það mun auðveldara ef það fær einhvern með sér til halds og trausts og leiðbeiningar.

Í sumum bakveikitilfellum mæla læknar með æfingum en í könnun sem gerð var á því hve margir færu eftir ráðleggingum læknisins var útkoman sú að þeir sem fóru þangað sem vanir þjálfarar höfðu stöðugt eftirlit með þeim æfðu vel og mikið en í þeim tilfellum þar sem baksjúklingarnir ætluðu að æfa upp á eigin spýtur án eftirlits eða hvatningar þá mættu þeir sjaldnar og náðu ekki eins góðum árangri. Í könnuninni voru tveir hópar. Annar hópurinn hafði leiðbeinanda sem hafði stöðugt eftirlit með þeim en fólkið í hinum hópnum var algerlega sjálfstætt. Það var ekki nóg með að þeir sem höfðu þjálfara næðu mun meiri árangri í alla staði heldur mættu þeir mun betur. Af 96 æfingatímum þá mættu þeir í 91 að meðaltali. Hinn hópurinn mætti hins vegar ekki í nema 32 af 96 tímum.

Þessi könnun birtist í blaðinu Journal of Occupational Medicine.