fitubrennslaFlestir sérfræðingar í mataræði mæla með að léttast hægt og rólega. Gefa sér sex til tólf mánuði til að ná markmiðum sínum. Það er skynsamlegt og raunhæft. Flest okkar eru hinsvegar ekki sérlega þolinmóð þegar létting er annars vegar.

Rétt eins og það að við völdum skyndibitamat sem kom okkur í vandræði viljum við skyndilausnir til að koma okkur úr vandræðum.

Vísindamenn við McMaster Háskólann í Kanada undir forystu Stuart Phillips og Thomas Longland sýndu nýverið fram á að niðurskurður í hitaeiningum, stíf hlébundin styrktarþjálfun og prótínríkt mataræði getur breytt miklu í fitu og vöðvahlutfalli líkamans á einungis fjórum vikum.

Þeir sem tóku þátt í rannsókninni skáru hitaeiningarnar niður um 40% og borðuðu annað hvort 1,2 grömm eða 2,4 grömm af prótíni fyrir hvert kíló líkamsþyngdar á dag. Þeim var s.s. skipt upp í tvo prótínhópa eftir magni. Báðir hóparnir æfðu mikið sex daga vikunnar. Hópurinn sem borðaði meira prótín léttist um fimm kíló af fitu og bætti á sig 1,2 kílóum af hreinum vöðvum á fjórum vikum og hópurinn sem borðaði minna prótín léttist um 3,2 kíló af fitu og 100 grömm af hreinum vöðvum.

Þessi mjög svo athyglisverða rannsókn sýnir að stífar æfingar samhliða niðurskurði í hitaeiningum getur breytt mjög miklu í vöðva- og fituhlutfalli líkamans og eftirtektarvert er hversu miklu munar um að auka prótínhlutfallið.
(American Journal Clinical Nutrition, vefútgáfa 27. janúar 2016)