Allt stefnir í fjölmennustu fitness- og vaxtarræktarkeppni frá því sögur hófust í Háskólabíói laugardaginn 19. nóvember. Nú þegar hafa 110 keppendur skráð sig en skráning stendur næstu tvær vikurnar og því má jafnvel búast við fleiri keppendum. Það er því ljóst að um met er að ræða sem þýðir að fitnesskeppnir hafa aldrei verið vinsælli.

Fjölmennasta mót sem haldið hefur verið var Íslandsmót IFBB sem haldið var um síðastliðna Páska í Háskólabíói en þá kepptu nákvæmlega 100 manns. IFBB, eða Alþjóðasamband líkamsræktarmanna eins og það heitir heldur að jafnaði tvö mót á ári, Íslandsmótið um Páskana og Bikarmótið sem fer fram í nóvember. Á Bikarmóti IFBB á síðasta ári kepptu 65 manns sem þótti gott. Þegar keppendafjöldi fer á annað hundraðið er ljóst að áhugasamir ættu ekki að missa af þessum stærsta viðburði ársins.

Dagskrá Bikarmóts IFBB í Háskólabíói:
Laugardagurinn 19. Nóvember
Kl 11.00 Forkeppni allra flokka hefst
Kl 18.00 Úrslit

Nánari upplýsingar um Bikarmótið verður að finna á fitness.is þegar nær dregur.