Skyndifæði hefur á sér slæmt orð, en það að borða á milli mála þarf ekki endilega að benda til þess að menn séu á óheilsusamlegu fæði. Staðreyndin er sú að sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að betra er að borða fleiri en hinar hefðbundnu þrjár máltíðir yfir daginn. Vandinn er að velja réttu fæðutegundirnar. Það að borða saltstangir eða örbylgjupoppkorn í staðinn fyrir kartöfluflögur gerir það að verkum að úr því fæst mun næringarríkara fæði sem auk þess inniheldur einungis brot af þeim hitaeiningum og fitu sem annars væru til staðar. Lykillinn að því að velja heilsusamlegt skyndibitafæði felst í því að velja fæðutegundir sem eru auðveldlega tiltækar og innihalda vítamín, steinefni og flókin kolvetni en ekki einfaldan sykur. Millimáltíðir sem taka tillit til þessa eru góðar til þess að fylla upp í það skarð sem myndast yfirleitt í fæði fólks hvað vítamín, trefjar og steinefni varðar. Ávextir og grænmeti eru oft á tíðum ekki á boðstólum þegar aðalmáltíðirnar standa yfir og því er tilvalið að reyna að bæta það upp með því að koma þeim inn á listann yfir tækifærisbita. Ef nartað er í eitthvað annað slagið yfir daginn helst blóðsykurinn mun jafnari. Vísindamenn hafa oft sýnt fram á að ef blóðsykurinn er stöðugur minnkar hættan á hjarta og kransæðasjúkdómum auk þess sem stöðugur blóðsykur kemur í veg fyrir truflanir á insúlinjafnvægi líkamans. Ef það jafnvægi raskast, hvetur það líkamann til þess að geyma orku sem forðafitu. Stöðugur blóðsykur hefur þar að auki enn einn kost, sem ekki er lítill. Ef hann er stöðugur, helst matarlystin í jafnvægi. Það skiptir miklu máli þegar ætlunin er að fylgja ákveðnu mataræði þar sem hitaeiningar eru skornar niður. Andleg vellíðan er fljót að fara ef blóðsykurinn hrapar niður. Blóðsykurinn segir til um það hversu saddur þú ert og hversu mikið þig langar til þess að fá þér að borða. Ef hann hrapar verulega niður (sem gerist sérstaklega stuttu eftir að borðað er sælgæti) þá verða menn gríðarlega hungraðir og borða allt sem hönd á festir og allur agi fýkur út í veður og vind. Margar máltíðir yfir daginn sem samanstanda af flóknum kolvetnum koma í veg fyrir þetta ástand. Þeir sem borða ómeðvitað þ.e.a.s. eru sífellt að narta í eitthvað án þess að vera að hugsa sérstaklega um það, þurfa hins vegar að athuga sinn gang. Best er að setjast niður og njóta þess að borða í stað þess að halda áfram að vinna, lesa eða gera hvað sem er um leið og borðað er. Ef ætlunin er hins vegar sú að slappa verulega af fyrir framan sjónvarpið eða álíka, eru nokkur ráð sem hægt er að hafa í farteskinu. Mikilvægast er að byrja á því að athuga hvað hægt sé að borða í staðinn fyrir hið hefðbundna skyndibitafæði sem þú ert vanur/vön að narta í fyrir framan sjónvarpið. Popp er fyrirtaks millimáltíð ef það er poppað í örbylgjuofni án fitu. Þrír bollar af poppi innihalda heilmikið af trefjum, 90 hitaeiningar og minna en eitt gramm af fitu. Þú þarft einungis að gæta þess að það poppkorn sem þú kaupir sé ekki með viðbættri fitu eða olíu.

Hér er tafla yfir nokkur atriði sem ráðlegt væri að skipta út.

Gráu línurnar eru óæskileg millimál

10 stk. kartöfluflögur (105 hitaeiningar, 7 gr. fita.)

10 stk. saltstangir. (10 hitaeiningar, <1 gr. fita.)

90 gr súkkulaðistikki. (473 hitaeiningar, 27 gr. fita.)

90 gr. vínber. (61 hitaeining, 0,1 gr. fita.)

100 gr. skafís. (220 hitaeiningar, 7 gr. fita.)

100 gr. jógúrt. (90 hitaeiningar, 4 gr. fita.)

Muffins kaka. (125-220 hitaeiningar, 6-8 gr. fita.)

Grahams kexkaka. (30 hitaeiningar, <1 gr. fita.)

1 bolli franskar kartöflur.  (235 hitaeiningar, 12 gr. fita.)

1 bolli hrásalat í olíulausri salatsósu. (25 hitaeiningar, 1 gr. fita.)

100 gr. kremkex. (535 hitaeiningar, 30 gr. fita.)

100 gr. flatkökur. (215 hitaeiningar, 2.2 gr. fita.)

100 gr. Camembert ostur. (312 hitaeiningar, 26 gr. fita.)

100 gr. kotasæla. (110 hitaeiningar, 4 gr. fita.)