Armbeygjur eru stöðluð æfing sem allir alast upp við að takast á við fyrr eða síðar. Þær eru frábær æfing fyrir brjóstvöðva, axlir, handleggi, efra bakið og ýmsa kjarnavöðva. Með því að breyta fóta- eða handastöðu er hægt að hafa mikil áhrif á erfiðleikastigið og að sjálfsögðu er búið að mæla álagið í þar til gerðum mælitækjum til þess að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvað gerist í þessari algengu og vinsælu æfingu. Vísindamenn við Háskólann í Wisconsin-Parkside stóðu fyrir áðurnefndum mælingum og mældu hversu mikið átak myndaðist við gólf í venjulegum armbeygjum, breyttri útfærslu og armbeygjum með annað hvort hendur eða fætur í upphækkaðri stöðu ofan á kassa. Álagið reyndist mest þegar hækkun fóta var um 60 sm frá gólfinu en minnst þegar gerðar voru armbeygjur í breyttri útfærslu. Ekki fylgir sögunni hvernig sú breytta útfærsla var. Það leysir eflaust engin alþjóðleg vandamál að vita þetta en gerir samt armbeygjurnar skemmtilegri fyrir vikið þar sem hægt er að gera þær erfiðari ef einhver telur þær of léttar í hefðbundinni útfærslu.

(Journal Strength Conditioning Research, 25:2891-2894, 2011)