madur_handlod_dumbellÞað er mjög algeng sjón í æfingastöðvum að sjá æfingafélaga standa yfir hvor öðrum og hvetja áfram af kappi til að kreista út eina lyftu til viðbótar allt þar til gefist er upp. Þetta er bæði algengt og vinsælt æfingakerfi til að ná fram nýmyndun vöðva. John Sampson og félagar við Háskólann í Wollongong í Ástralíu halda því hinsvegar fram að þetta sé ekki nauðsynlegt til að ná hámarksárangri í vöðvastækkun. Þeir báru saman ýmis æfingakerfi á 12 vikna tímabili og öll kerfin náðu ágætum árangri í styrktaraukningu og ekki var hægt að sjá neinn mun á æfingakerfum. Hafa ber þó í huga að rannsóknin var ekki stór og að það voru ekki þrautþjálfaðir vaxtarræktarmenn sem tóku þátt í henni, heldur nemendur sem voru vanir hæfilegri hreyfingu. Það er því ekki endilega hægt að fullyrða að álíka árangur náist af flestum æfingakerfum fyrir þrautþjálfaða einstaklinga. Þegar byrjendur eru annars vegar er hinsvegar hægt að færa rök fyrir því að æfingar fram að uppgjöf séu óþarfi.
(Scandinavian Journal Medicine & Science in Sports, vefútgáfa 24. mars 2015)