Leiðandi stofnanir á sviði heilsuræktar hafa mælt með að við hreyfum okkur eða æfum í 150 mínútur á viku hið minnsta í hóflegum æfingum eða 75 mínútur í áköfum æfingum. Einnig skilar árangri að blanda hóflegum og erfiðum æfingum saman.

Martin Gibala og félagar við McMaster háskólann í Kanada gerðu athyglisverða rannsókn þar sem stuttar skorpuæfingar (HIIT) sem stóðu í 12 vikur reyndust auka þol og efla efnaskiptaheilsu jafn mikið og 45 mínútna æfingar þrisvar í viku í 12 vikur.

Hópurinn sem tók stuttar hlébundnar æfingar tók þrjá 20 sekúndna spretti á þrekhjóli með tveggja mínútna hvíld á milli. Samtals stóðu átökin því einungis í eina mínútu.

Samanburðarhópurinn æfði í 45 mínútur á þrekhjóli þrisvar í viku og báðir hóparnir juku þol um 19%, uppskáru betri blóðsykurstjórnun og meiri hvatberavirkni í vöðvafrumunum. Hvatberar eru einskonar orkustöðvar í frumunum.

Niðurstöðurnar eru nokkuð spennandi en það er full snemmt að spá fyrir um það hvort hlébundnar æfingar skili til lengri tíma sömu jákvæðu áhrifunum á almennt heilbrigði eins og viðteknari æfingaform gera.
(PLOS ONE, vefútgáfa 26 apríl, 2016, DOI:101371/journal.pone. 0154075)