Til eru ótrúlega margar æfingar til þess að æfa helstu vöðvahópa líkamans og sitt sýnist hverjum um það hverjar eru bestar til alhliða uppbyggingar. Auðvitað getur það farið eftir því hvernig æfingaáætlunin lítur út hvaða æfingar borgar sig að taka en oft er það svo að margir sem koma í æfingasalinn ætla sér að gera eina æfingu fyrir hvern vöðvahóp. Axlirnar eru í raun þrír vöðvar sem nánast útilokað er að ná öllum í einu og sömu lyftunni. Hinsvegar er óhætt að mæla með Arnold axlapressunni (upprunnin frá vaxtarræktarárum Schwartzenegger). Hún hentar vel til uppbyggingar en hentar síður styrktaríþróttamönnum. Standandi axlapressa fyrir framan með stöng er hentugri fyrir hraða- og styrktaríþróttamenn. Í henni þarf að halda jafnvægi og nota stóra vöðvahópa til að framkvæma lyftuna. Ekki einungis þjálfarar heldur einnig vísindamenn hafa í auknum mæli horft til æfinga sem krefjast þess að allur líkaminn sé notaður eins og jafnhöttun, réttstöðulyfta, snörun og bekkpressa gera þegar ætlunin er að auka styrk og kraft fyrir íþróttir. Stórar æfingar hafa í för með sér stóra hluti.