Flestir þyngjast þegar þeir koma á miðjan aldur, en hvernig stendur á því að sumir gera það ekki? Bandarísku krabbameinssamtökin í Atlanta gerðu rannsókn sem átti að svara þessari spurningu. Henry Kahn og samstarfsmenn hans fengu nærri 80,000 heilbrigða einstaklinga til þess að fylla út svarblað árið 1982 þegar fólkið var á bilinu 40 til 54 ára og síðan aftur árið 1992. Vísindamennirnir báru síðan saman þessa 25,000 manns sem fitnuðu ekki við 50,000 manns sem fitnuðu. Niðurstaðan varð sú að ólíklegra var að fólk þyngdist ef það borðaði mikið af grænmeti (minnst 20 skammta á viku) eða ef það æfði reglulega (skokkaði minnst einn til þrjá tíma á viku eða fór í gönguferðir, þolfimi, styrktarþjálfun eða sló blettinn í minnst fjóra tíma á viku). Þyngdaraukning varð líklegri hjá fólki sem borðaði rautt kjöt oftar en þrisvar í viku. Ef eitthvað er hægt að læra af því hvað fólk gerir, þá er það að mataræði sem inniheldur mikið af grænmeti og lítið af kjöti veldur minni þyngdaraukningu. Vísindamennirnir bentu ennfremur á að þetta fólk virtist síður fitna yfir magasvæðið þar sem miklu skiptir að fitna ekki. Þeir sem fitna mest á magasvæðinu eiga mest á hættu að fá hjartasjúkdóma, sykursýki og hugsanlega brjósta- eða ristilkrabbamein, mun frekar en fólk sem fitnar aðallega annarsstaðar.