Kristján Samúelsson einn af okkar bestu fitnesskeppendum er búsettur í Danmörku þessa dagana og starfar þar hjá fyrirtækinu Árnason Networks sem flytur inn fæðubótarefni fyrir danska markaðinn. Fyrirtækið sem er jafnframt með vefinn vitaminer.com og er að vinna að markaðssetningu fæðubótarefna á Norðurlöndunum og Evrópu.
“Ég er að stefna á að keppa um Páskana á Íslandsmótinu í fitness á Akureyri og er búinn að vera að æfa vel undanfarið ár”,
segir Kristján í samtali við Fitnessfréttir.
“Einnig ætla ég að keppa á Loaded Cup mótinu sem haldið verður í Kaupmannahöfn í lok apríl og langar að halda opnum möguleikum á að keppa á Evrópumóti IFBB sem fer fram í maí í Slóvakíu. Þetta fer þó allt eftir því hvernig gengur í undirbúningi og keppni.”
Kristján er í upphafi undirbúnings fyrir fitnessmótin 103,7 kg. Hann segist vonast til að enda í 87 kg, en á síðasta ári var hann 84 kg í keppnisformi.
“Þrjú kíló eru kannski of mikið á einu ári í þyngingu, en ég ætla að sjá til hvernig ég verð. Næ þó vonandi að vera minnst 2 kg þyngri en á síðasta ári í vöðvamassa. Þetta er bara spurning um það hvernig ég kem undan vetri”,
segir Kristján að lokum.