Íslandsmóti Alþjóðasambands líkamsræktarmanna sem fór fram í Háskólabíói lauk í gær. Þetta er í fyrsta skipti í 16 ár sem Íslandsmótið fer fram í Reykjavík en hefð hefur verið fyrir því að mótið sé haldið á Akureyri. Fjölmennt var í Háskólabíói bæði meðal áhorfenda og keppenda þar sem nákvæmlega 100 keppendur í ýmsum flokkum stigu á svið.
Rannveig Kramer varði Íslandsmeistaratitil sinn í fitnessflokki kvenna en hún sigraði sinn flokk og heildarkeppni kvenna í fitness. Kristján Geir Jóhannesson varð Íslandsmeistari í fitness karla og þau Magnús Bess Júlíusson og Jóna Lovísa Jónsdóttir urðu Íslandsmeistarar í vaxtarrækt.
Baráttan um efstu sætin í fitnessflokkum kvenna var óvenju hörð. Keppt er í tveimur hæðarflokkum, yfir og undir 163 sm. Í lægri flokknum sigraði Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir sem var í hörkuformi, önnur varð Eva Lind Ómarsdóttir og þriðja Eva María Davíðsdóttir. Í hærri flokknum sigraði Rannveig Kramer en önnur varð Freyja Sigurðardóttir og Björk Varðardóttir þriðja.
Sjö keppendur tókust á í unglingaflokki fitness kvenna. Una Margrét Heimisdóttir sigraði en önnur varð Dagný Pálsdóttir og þriðja varð Eva Rún Helgadóttir. Keppendur í unglingaflokki í fitness mega verða 21 árs á árinu sem keppnin fer fram.
Það kom engum á óvart að Kristín Kristjánsdóttir sigraði fitnessflokk 35 ára og eldri. Fjórir keppendur kepptu að þessu sinni í flokknum en þær Ásdís Þorgilsdóttir og Steinunn Helgadóttir höfnuðu í öðru og þriðja sæti. Kristín var vel skorin á Evrópumælikvarða og það verður því forvitnilegt að sjá hvernig henni gengur um næstu helgi á stóru alþjóðlegu móti sem fer fram í Austurríki.
Það fór ekkert á milli mála í fitnessflokki karla að bestu keppendur landsins voru komnir saman á einn stað. Frjálsu stöðurnar við tónlist voru frábærar hjá mörgum þeirra og keppnin var hin skemmtilegasta í alla staði. Baráttan um efstu sætin var sömuleiðis sérlega erfið. Fljótlega varð þó ljóst að Kristján Geir stæði uppi sem sigurvegari. Hann var gríðarlega vel undirbúinn og hefur smátt og smátt verið að bæta samræmi og vöðvamassa á undanförnum mótum. Reynsluboltinn að norðan, Gauti Már Rúnarsson frá Ólafsfirði var að venju í frábæru formi og varð annar, en Jakob Már Jónharðsson veitti þeim tveimur harða keppni og hafnaði í þriðja sæti.
Í unglingaflokki tókust sex keppendur á. Alexander Kjartansson stóð uppi sem Íslandsmeistari unglinga en þeir Friðrik Ari Viðarsson og Arnór Már Jakobsson urðu í öðru og þriðja sæti. Arnór jafnaði þarna föður sinn Jakob Má Jónharðsson sem sömuleiðis varð í þriðja sæti í karlaflokki eins og áður sagði.
Sigurvegarar allra flokka mættust á sviðinu til þess að skera úr um það hver væri heildarsigurvegari í fitness kvenna. Það voru þær Rannveig Kramer sem sigraði í yfir 163 sm flokki, Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir sem sigraði í undir 163 sm flokki, Kristín Kristjánsdóttir sem sigraði yfir 35 ára flokkinn og Una Margrét Heimisdóttir sem sigraði unglingaflokkin. Í heildarkeppninni raða dómarar öllum keppendum í sæti en einungis sigurvegarinn er tilkynntur. Fór svo að Rannveig Kramer sigraði.
Það þurfti ekki marga keppendur í vaxtarrækt til þess að gera keppnina spennandi. Alls kepptu sjö keppendur í vaxtarrækt karla og þrír í kvennaflokki. Magnús Bess Júlíusson sigraði þrátt fyrir að vera töluvert frá sínu besta formi hvað skurð varðar, en ekki vantaði massann og frábært samræmi. Þeir Svavar Smárason og Sigurkarl Aðalsteinsson voru hinsvegar vel undirbúnir og vel skornir – en nokkrum númerum minni. Bæði Sigurkarl og Svavar sýndu fram á miklar framfarir á milli ára. Fór svo að Sigurkarl hafnaði í öðru sæti og Svavar í þriðja.
Þrír keppendur voru í unglingaflokki í vaxtarrækt. Það voru þeir Hallgrímur Þór Katrínarson, Bjarmi Alexander Rósmannsson og Saulius Genutis. Bjarmi stóð uppi sem Íslandsmeistari unglinga, en þeir Hallgrímur og Saulius í öðru og þriðja sæti.
Íslandsmótinu í módelfitness fór fram á fimmtudagskvöld. Fjöldi fólks var í húsinu og ætlaði þakið stundum af í fagnaðarlátum. Alls kepptu 47 keppendur í þremur flokkum, módelfitness unglinga, undir 167 sm og yfir 167 sm. Ragna Gréta Eiðsdóttir varð Íslandsmeistari unglinga en þær Elva Katrín Bergþórsdóttir og Unnur Kristín Óladóttir sigruðu hæðarflokkana. Í lokin tókust þær þrjár á í heildarkeppni og fór svo að Unnur Kristín sigraði sem heildarsigurvegari í módelfitness.
Dómarar áttu úr vöndu að ráða, enda var um fjölmenna flokka að ræða. Einungis munaði örfáum stigum á efstu keppendum en þetta varð niðurstaðan.
Ragna Gréta Eiðsdóttir sigraði unglingaflokkinn með nokkrum yfirburðum. Fékk 17 stig en Magnea Gunnarsdóttir fékk 43 stig og Aldís Rúna Þórisdóttir 48 stig.
Mjótt var á munum meðal efstu keppenda í undir 167 sm flokki þar sem 18 keppendur mættust. Elva Katrín sigraði með 31 stigi, en í öðru sæti kom Kristbjörg Jónasdóttir einungis tveimur stigum á eftir henni með 33 stig. Fast á hæla þeirra var Dóra Sveinsdóttir með 41 stig. Þau mistök gerðust því miður í þessum flokki að röng úrslit voru kynnt í verðlaunaafhendingu. Mistökin má rekja til villu í Excel forriti því sem notað var við útreikningana. Röð tilviljana varð síðan til þess að mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en verðlaunaafhendingu var að ljúka, en búið er að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig og þeir sem eiga í hlut eru beðnir velvirðingar.
Alls kepptu 21 keppandi í yfir 167 sm flokki. Flokkurinn var gríðarlega sterkur og ljóst að baráttan um efstu sætin yrði hörð, enda fór svo að einungis munaði 6 stigum á efstu fjórum sætunum. Unnur Kristín Óladóttir sigraði með 54 stig, Vilborg Sigurþórsdóttir fékk 55 stig, Aðalheiður Ýr 59 stig og Alexandra fékk 60 stig.
Íslandsmót Háskólabíó 22. apr. 2011
83 Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir 3
93 Gunnlaugur Víðir Guðmundsson
98 Benó Bragason
99 Lárus Kristinn Jónsson
100 Eiríkur Þórir Baldursson
1 Bergrún Lind Jónasdóttir 6
5 Þórey Aðalsteinsdóttir
46 Alexandra Sif Nikulásdóttir4
31 Inga Björk Matthíasdóttir 5
47 Valgerður Guðrún Valsdóttir
Sjá myndasafn…Video frá Alfreð Möller er að finna hér hjá Lifestyle Films