Það runnu bæði gleði- og sorgartár á Bikarmóti IFBB sem fór fram um helgina í troðfullu Háskólabíói. Alls stigu 126 keppendur á svið sem er þátttökumet. Keppt var í fitnessflokkum karla og vaxtarrækt á föstudeginum en módelfitness og fitness kvenna á laugardeginum. Þakið ætlaði af húsinu í fagnaðarlátum þegar úrslit voru kynnt og keppendur uppskáru árangur erfiðis undanfarinna mánaða og ára.
Þær Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir og Kristín Sveiney Baldursdóttir urðu heildarsigurvegarar í sínum flokkum, Aðalheiður í módelfitness og Kristín í fitness. Alls keppti 31 keppandi í fitnessflokkum kvenna og 65 í módelfitness. Sigurvegarar í fitnessflokkum kvenna urðu þær Una Margrét Heimisdóttir sem sigraði í unglingaflokki, Rósa Björg Guðlaugsdóttir sem sigraði í flokki 35 ára og eldri, Jóhanna Hildur Tómasdóttir sem sigraði í undir 163 sm flokki og Kristín Sveiney Baldursdóttir sem sigraði í yfir 163 sm flokki. Fór svo að Kristín sigraði í heildarkeppninni í fitness kvenna eins og áður sagði eftir jafntefli við Jóhönnu, Unnur varð þriðja og Rósa fjórða.
Í heildarkeppninni í módelfitness mættust þær Magnea Gunnarsdóttir sem sigraði í unglingaflokki, Jara Sól Guðjónsdóttir sem sigraði í undir 163 sm flokki, Margrét Gnarr sem sigraði í undir 168 sm flokki, Karen Lind Richardsdóttir sem sigraði í undir 171 sm flokki og Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir sem sigraði í yfir 171 sm flokki. Aðalheiður sigraði í heildarkeppninni eins og áður sagði en önnur varð Margrét Gnarr, Karen Lind varð þriðja, Jara Sól varð fjórða og Magnea fimmta.
Í fitness karla sigraði Gauti Már Rúnarsson en í vaxtarræktinni stóð Magnús Bess uppi sem sigurvegari. Mímir Nordquist sigraði í unglingaflokki í fitness og Svavar Ingvarsson sigraði í unglingaflokki í vaxtarrrækt. Magnús Bess vann mjög afgerandi sigur í heildarkeppninni í vaxtarrækt þegar sigurvegarar í fimm vaxtarræktarflokkum stigu saman á svið. Gísli Örn Schramm Reynisson sigurvegari í undir 90 kg flokki varð annar í heildarkeppninni, Valgeir Gauti Árnason sigurvegari í undir 100 kg flokki varð þriðji, Júlíus Þór Sigurjónsson sem sigraði í undir 80 kg flokki varð fjórði og Svavar Ingvarsson sigurvegari í unglingaflokki varð fimmti.
Úrslit einstakra flokka urðu eftirfarandi, en þeim sem ekki eru í efstu sex sætunum er raðað í númeraröð.