HVERS VEGNA GEFAST MARGIR UPP Á ÞVÍ AÐ KOMAST Í FORM?
Líkamsræktariðnaðurinn er stóriðnaður í heiminum í dag. Milljónir manna stunda æfingastöðvar og halda sér í góðu formi og þeim fer sem betur fer fjölgandi.
Í velmegunarþjóðfélaginu erum við sjálf samt sem áður okkar verstu fjendur. Velmeguninni fylgja nefnilega nautnirnar matur, sælgæti, leti og hreyfingaleysi sem því miður hafa þær aukaverkanir að kyrrsetuflipar setjast á skrokkinn eins og álög í formi fellinga.
Þegar okkur ofbýður að horfa upp á fellingarnar eða másið og blásið þegar við tökum nokkur skref upp stiga rekur sektarkenndin okkur í að gera eitthvað í málinu. Þegar hér er komið sögunni er kominn tími til að kaupa árskort í æfingastöð og skipta um gír.
Það er einmitt á þessum tímamótum sem fjölmargir ætla að taka sér tak og setja sér það markmið að geta horft í spegil án þess að fussa og sveia. Markmiðin eru jú mismunandi en mörg falla þau því miður fyrr eða síðar.
Þegar ætlunin er að taka sér tak og vinna niður fellingarnar sem velmegunin hefur komið haganlega fyrir er ýmislegt sem þarf að hafa í huga. Í huga nefnilega vegna þess að það sem alltof algengt er að menn gleymi er að til þess að ná stjórn á líkamanum þarf fyrst að ná stjórn á huganum. Ef þú ert ekki í andlegu jafnvægi nærðu ekki að lifa við þær breytingar sem þú gerir á mataræði og lifnaðarháttum.
Hér er ekki ætlunin að halda tölu um það hvað þú átt að borða eða ekki borða né það hvernig þú átt að æfa. Nei, öllu frekar að sýna þér fram á nokkrar af helstu andlegu gildrunum sem menn falla í þegar þeir ætla að taka sér tak í mataræði og æfingum.
Uppskrift að breyttum lífsstíl
Ef eitthvert eitt atriði skiptir meira máli en annað til þess að geta breytt um lífsstíl þannig að hann endist þá er það líklega stöðugleiki.
Ef stöðugleiki er ekki til staðar er einungis tímaspursmál hvenær lífsstíllinn verður allt annað en reglufastur. Ég ætla ekki að ljúga því að neinum að lykillinn að betri lífsstíl felist í góðum matseðli eða æfingaáætlun.
Helsta ástæðan að mínu mati fyrir því að einkaþjálfarar eru jafn vinsælir og þeir eru að verða í dag er ekki sú að þeir eru sérfróðir um mataræði og æfingar. Nei, vinsældir þeirra má rekja til þess að þeir veita fyrst og fremst aðhald og stöðugleika. Allt hitt eru aukaatriði.
Það er víða hægt að nálgast greinar og fræðslu um það hvernig á að léttast, æfa og komast í form t.d. í okkar ágæta blaði en það veitir ekki það aðhald og stöðugleika sem einkaþjálfari eða góður æfingafélagi veitir.
En hvernig er hægt að varðveita stöðugleikann? Enn og aftur ætla ég ekki að ljúga að lesandanum að til sé töfrauppskrift sem fær hann til þess að vera í andlegu jafnvægi það sem eftir er ævinnar. Hinsvegar er ýmislegt sem ber að varast.
Góður æfingafélagi gulli betri
Fátt er betra en góður æfingafélagi. Einkaþjálfarar eru að einhverju leiti að taka við af æfingafélögum í dag en það er önnur saga. Góður æfingafélagi hvetur þig áfram í æfingum, rekur þig til að mæta, fylgist með árangrinum þínum og spyr þig reglulega hvort þú hafir nokkuð haldið pizzuveislu um helgina.
Systir stöðugleikans
Regla er systir stöðugleikans. Ef regla er ekki til staðar er stöðugleikinn munaðarlaus. Ef þú borðar ekki reglulega og sérstaklega langt líður á milli máltíða hverfur stöðugleikinn. Þar með ert þú búinn að útskrifa enn eina misheppnaða tilraunina til að bæta líf þitt. Hvers vegna? Vegna þess að þegar langt líður á milli máltíða fellur blóðsykurinn hættulega mikið sem þýðir að þegar þú opnar ísskápinn heima hjá þér er ekkert orðið eftir af andlegri festu vegna hungurs og þú ræðst á það sem fyrir verður í ísskápnum og rankar við þér löngu seinna við þá staðreynd að þú ert búinn að tæma ísskápinn. Þar fór stöðugleikinn nema þú hafir rænu á að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Það sama á við um æfingarnar. Regla verður að vera til staðar. Algengt er að menn eigi erfitt með að mæta á æfingu síðari hluta dags vegna vinnunnar. Klára þarf allskyns verkefni eða síminn er rauðglóandi og enginn friður fæst til þess að fara á æfingu. Í slíkum tilfellum er um tvennt að ræða. Æfa snemma á morgnana áður en vitleysan hefst eða breyta forgangsröðinni og mæta á æfingu síðari hluta dags hvað sem tautar til þess að svíkja ekki æfingafélagann ef einhver er. Gildran felst nefnilega oft í því að æfingunum er forgangsraðað aftast. Eiga þær endilega að vera aftast í röðinni?
Helsti óvinur stöðugleikans
Óraunhæfar breytingar eru þar efst á listanum. Vissulega er líklegt að þú þurfir að gera breytingar á mataræðinu til þess að hrekja fellingarnar á undanhald. Hinsvegar er jafnvíst að ef þú ert ekki sáttur við breytingarnar er betur heima setið. Í fyrsta lagi stoðar ekki að minnka hitaeiningarnar svo mikið að þær séu komnar niður fyrir hungurmörk. Fáðu sem mest fyrir hverja hitaeiningu í mataræðinu. Það er t.d. ólíklegt að þú sért svangur eftir að hafa borðað 500 gr af skyri með léttmjólk eða undanrennu í því eru ekki margar hitaeiningar en ef þér finnst skyr ekki gott eða ásættanlegt þýðir ekki að setja það á matseðilinn. Það er dæmt til að mistakast.
Borðaðu frekar meira af því sem þér þykir gott svo lengi sem það er innan þeirra hitaeiningamarka sem æskilegar eru. Þar gildir að leita að fæðutegundum sem eru ásættanlega hollar og þér þykir góðar. Þarna liggur sjálfsagt ein helsta ástæðan fyrir vinsældum allskyns próteindrykkja. Með þeim ertu ekki bara að kaupa þér ágætis næringu heldur líka stöðugleika í pakka. Á þeim tíma dagsins sem þú átt erfitt með að elda eða hafa fyrir heilnæmri máltíð er tilvalið að grípa til stöðugleika í próteinpakka með súkkulaðibragði meira að segja.
Stattu upp og reyndu aftur
Reyndu að skilja að andlegur stöðugleiki þarf að vera til staðar til þess að þú getir gert varanlegar breytingar á lífsstílnum. Yfirleitt kveða menn upp dauðadóm yfir líkamsræktarátakinu með því að ætla sér of mikið. Í orðinu átak felst sá skilningur að það sé erfitt. Það sem þú þarft að varast er að gera átakið ekki það erfitt að þú þolir það ekki til lengri tíma. Algengt er að menn fari á nokkurra vikna fitubrennslunámskeið til þess að ná af sér aukakílóunum og jafn algengt er að menn standi sig að því að vera í sömu sporum nokkru síðar. Hvers vegna? Það endist enginn við að taka sig á með látum.
Gerðu þolanlegar breytingar. Það er lykillinn að því að geta lifað við þann lífsstíl sem jafnt og þétt kemur þér í form. Það er t.d. ekki víst að þú þolir að byrja í hörku æfingum OG taka mataræðið í gegn. Þetta verður þú einn að meta því upphafið og endirinn að velgengninni er í kollinum á þér hvergi annarsstaðar. Ekki treysta á aðra. Enn og aftur ætla ég ekki að ljúga að þér að þetta sé auðvelt. Til þess er mannlegt eðli alltof flókið. Vanlíðan og þunglyndi geta ein og sér séð til þess að verða þér að falli, en ekki gleyma því að þú getur ekki tekið næsta skref nema standa fyrst upp og reyna aftur.
Fáir sigrar hafa unnist í fyrstu tilraun.