Sjö íslendingar kepptu um helgina á Arnold Classic Europe stórmótinu sem fór fram í Madríd á Spáni. Una Margrét Heimisdóttir sigraði í unglingaflokki í fitness en hún keppti einnig í yfir 168 sm fullorðinsflokki þar sem hún hafnaði í fimmta sæti. Karen Lind Thompson náði þriðja sætinu í módelfitness undir 172 sm flokki. Flokkarnir sem íslensku keppendurnir kepptu í voru mjög fjölmennir en þegar allt er talið kepptu 800 keppendur á mótinu. Arnold Classic Europe er því orðið eitt stærsta mótið sem haldið er á vegum IFBB. Árangur íslendingana er því mjög góður þegar horft er á styrkleika mótsins.
Ásta Björk Bolladóttir sem keppti í yfir 168 sm flokki í fitness kvenna komst í úrslit 15 efstu í sínum flokki og hafnaði í 9. sæti. Simona Macijauskaite sem keppti í undir 169 sm flokki í módelfitness náði sömuleiðis frábærum árangri, komst í úrslit 15 efstu og hafnaði í 12 sæti þegar upp var staðið.
Þær Ísabella Ósk Eyþórsdóttir, María Kristín Guðjónsdóttir, og Nadezeda Nikita Rjabchuk komust ekki 15 manna úrslit í sínum flokkum.