Ömurlegur andi í vinnunni og álag sem veldur streitu hefur veruleg áhrif á heilbrigði og offitu. Við eyðum stórum hluta ævinnar í vinnunni og því skiptir verulegu máli hvernig okkur líður þar. Rannsóknir á þessu sambandi hafa verið misvísandi. Nýlega voru birtar rannsóknarniðurstöður sem gáfu til kynna að ekkert samband væri á milli líkamsþyngdarstuðuls (BMI) og streitu í vinnu. Bong Kyoo Choi við Kaliforníuháskóla vísar þeirri rannsókn hinsvegar á bug og bendir á að aðrar rannsóknir hafi sýnt fram á að vinnustreita tengist hækkandi mittismáli. Mittismál sé mun betri mælikvarði á lélega efnaskiptaheilsu en líkamsþyngdarstuðull. Einnig er fylgni á milli vinnustreitu og lítillar hreyfingar sem er mikilvægasti þátturinn í því að meta efnaskiptaheilbrigði og langlífi. Fjöldi vinnustunda er einnig mælikvarði sem tengist slæmri heilsu og offitu.
(Journal Internal Medicine, vefútgáfa 12. desember, 2013)
