Um helgina fór fram Norðurlandamótið í fitness og vaxtarrækt þar sem brottflutti íslendingurinn Sólrún M. Stefánsdóttir varð Norðurlandameistari í fitness. Sólrún sem flutti til Noregs fyrir nokkrum árum keppti fyrir hönd Noregs á mótinu.
Vitanlega eigna Íslendingar sér eitthvað í sigri hennar þrátt fyrir að hún hafi ekki keppt fyrir hönd landsins. Sólrún hóf sinn keppnisferil hér á landi á sínum tíma.
Sex aðrir Íslendingar kepptu á Norðurlandamótinu en ekki var að sjá að þeir ættu góðan dag í augum skandinavísku dómarana að þessu sinni. Rannveig Kramer hafnaði í sjötta sæti í yfir 163 sm flokki, Guðrún H. Ólafsdóttir í áttunda í undir 163 sm flokki og Þorbjörg Sólbjartsdóttir í tíunda sæti í sama flokki. Hilda Elísabet Guttormsdóttir keppti í vaxtarrækt og hafnaði þar í fjórða sæti. Þeir Arnþór Ásgrímsson og Kristján Geir Jóhannesson kepptu í fitness karla þar sem keppnin var mjög erfið eins og endranær, en Arnþór sem keppti í undir 180 sm flokki hafnaði í sjötta sæti og Kristján sem keppti í yfir 180 sm flokki varð fimmti.