Fjórir íslendingar kepptu um helgina á heimsmeistaramóti öldunga og unglinga sem haldið var í Santa Susanna á Spáni. Alls voru 235 keppendur á mótinu frá 51 landi og keppnin því hörð í mörgum flokkum. Þær Ragnhildur Finnbogadóttir og Dóra Sif Egilsdóttir kepptu í unglingaflokki í fitness kvenna með frábærum árangri. Þær kepptu báðar í yfir 163 sm flokki þar sem Ragnhildur hafnaði í fjórða sæti og Dóra Sif í sjötta sæti. Magnús Bess Júlíusson keppti í yfir 90 kg flokki í vaxtarrækt þar sem 16 öflugir keppendur kepptu um að komast í sex manna úrslit en svo fór að Magnús komst ekki í úrslit. Keppnin í flokki Magnúsar var afar jöfn og styrkleiki flokksins með því flottasta sem sést hefur á þessum heimsmeistaramótum. Sama á við um Alexander Kjartansson sem keppti í fitnessflokki karla en komst ekki í úrslit efstu manna. Í myndasafninu er að finna 124 myndir frá mótinu teknar af undirrituðum, en því miður ekki af öllum flokkum þar sem undirritaður var að dæma flesta flokkana á mótinu og því ekki möguleiki á að munda myndavélina. Hinsvegar er að finna fjölda mynda á vefnum iform.no og myndir frá úrslitum á heimasíðu Alþjóðasambands líkamsræktarmanna ifbb.com.