FundurFinnlandFeb2013
Helstu forsvarsmenn norðurlandana ásamt forseta IFBB, Rafael Santonja sem er fyrir miðju.

Haldinn var fundur um framtíð Norðurlandamótsins í fitness, módelfitness og vaxtarrækt í Lahti í Finnlandi 9. febrúar. Samstarf hófst eftir hlé árið 2005 á milli Finnlands, Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Eistlands og Íslands um að halda árlega Norðurlandamót. Einar Guðmann á sæti í Norðurlandaráði NBFF fyrir hönd Íslands og sótti fundinn. Næsta mót á Íslandi verður haldið í október 2014 en á þessu ári mun mótið fara fram 19. október í Eistlandi. Samstarfið hefur verið gott á milli landana og ætlunin er að efla Norðurlandamótið og stuðla að fjölgun keppenda þar enda um að ræða sterkasta mótið sem í boði er fyrir keppendur áður en haldið er á Evrópu- eða heimsmeistaramót.
Mikill vilji er hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna IFBB – til þess að taka íþróttafitness (Athletic fitness) upp sem keppnisgrein þar sem keppt verður í upptogi, dýfum, róðri og samanburði. Fram til þessa hefur mátt skipta fitnesskeppnum á vegum Alþjóðasambandsins í fitnessflokka með og án frjálsrar danslotu. Það er hinsvegar svolítið kaldhæðnislegt að árum saman var eingöngu keppt í fitness hér á landi með þrautabraut og æfingum eða danslotu. Ísland var svolítið sér á báti með það að árum saman fóru allir fitnesskeppendur í gegnum þrautir sem eru sambærilegar við það sem kallast í dag íþróttafitness. Árið 2008 var síðasta árið sem haldin var fitnesskeppni með hindranabraut og 2009 var síðasta árið sem haldin var fitnesskeppni með upptogi, dýfum og róðri. Nú þegar hætt er að keppa í þessum greinum hér á landi byrjar Alþjóðasambandið að kynna íþróttafitness sem nýja keppnisgrein.
Eflaust má nefna ótal ástæður fyrir því að hætt er að keppa í þrautum og hindranabraut hér á landi en þegar boðið var upp á að keppa í fitnessflokkum án þrauta færðu flestir keppendur sig yfir í þá keppnisflokka. Undirbúningur fyrir mót er tvímælalaust erfiðari þegar íþróttafitness er annars vegar þar sem keppandinn þarf að undirbúa samanburð á sviði og ná hámarksgetu í æfingum og þrautum á sama tíma. Setja verður því spurningamerki við það hvort raunhæft sé að bjóða upp á keppni í íþróttafitness á meðan annað er í boði. Ætlunin er þó að halda því til streytu að láta reyna á það hér á landi að halda sérstakt mót í íþróttafitness. Þó ekki væri nema til þess að láta á það reyna í ljósi þess að Alþjóðasambandið er að hefja keppni í þessum keppnisflokkum þegar þeim er nýlega hætt hér heima.

Breytingar á Norðurlandamótinu

Ákveðið var á áðurnefndum fundi að halda norðurlandamótið ávallt í annarri eða þriðju viku af október. Fyrst og fremst verður keppt í opnum flokkum, ekki í öldunga- og unglingaflokkum. Í vaxtarrækt karla verður keppt í fjórum flokkum: -80 kg,  -90 kg og undir og yfir 100 kg, einum opnum flokki í vaxtarrækt kvenna – og rétt er að nefna að líklegt þykir að þessi flokkur verði felldur niður á næsta ári. Classic Bodybuilding – yfir og undir 180 sm, Men´s Physique opnum flokki, íþróttafitness karla og kvenna, Women´s physique, Bikini fitness -163 sm, -168 sm og yfir 168 sm og Bodyfitness -163 sm, -168 sm og yfir 168 sm.
Ennfremur var ákveðið að hafa engar takmarkanir í flokkum á fjölda keppenda og Eistlendingar munu framkvæma lyfjapróf á mótinu. Sömuleiðis er stefnt að því að bjóða Pawel Filleborn yfirdómara IFBB til þess að halda námskeið fyrir dómara og leggja mótinu lið.