Í dag eignuðust Íslendingar sinn fyrsta Evrópumeistara í fitness þegar Kristín Kristjánsdóttir sigraði í flokki 45 ára og eldri á Evrópumótinu í fitness sem fram fór í Santa Susanna á Spáni. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenski þjóðsöngurinn hljómar í keppnishöllinni til heiðurs íslenskum fitnesskeppanda og jafnframt í fyrsta skipti sem Kristín keppir í flokki 45 ára og eldri. Jóna Lovísa Jónsdóttir keppti í sama flokki og Kristín og hafnaði í öðru sæti. Í þriðja sæti varð keppandi frá Ítalíu.
Í flokki unglinga gerði Elva Katrín Bergþórsdóttir sér lítið fyrir og nældi í silfur í módelfitness. Þetta er tvímælalaust besti árangur sem íslenskur unglingur hefur náð erlendis. Í flokki Elvu voru 15 keppendur frá níu löndum og sigurvegarinn varð Nikola Weiterova sem varð heimsmeistari 2011. Í umfjöllun fyrir mótið var Nikola fyrirfram álitin sigurstranglegust en talið var að hún myndi helst eiga í höggi við Andrea Katselou frá Grikklandi og Roza Mazurek frá Póllandi sem hafa verið í verðlaunasætum undanfarið. Svo fór aldeilis ekki þar sem Elva stakk sér í annað sætið. Þær Ragna Eiðsdóttir og Ragnhildur Finnbogadóttir komust ekki í úrslit sex efstu í sínum flokkum.
Sigurkarl með brons í vaxtarræktinni
Sigurkarl Aðalsteinsson keppti í flokki 50-60 ára og undir 80 kg og hafnaði þar í þriðja sæti sem er frábær árangur. Ísland á því þrjá keppendur á verðlaunapalli á Evrópumótinu í fitness og vaxtarrækt sem verður að teljast til stórtíðinda þar sem full ástæða hefur verið til að fagna því einu að nálgast það að komast í nágrenni við verðlaunasæti. Þetta gengi Íslendingana undirstrikar því velgengni okkar á erlendum mótum undanfarið sem hefur markað ný tímamót.
Fleiri myndir er að finna á eastlab.biz
Úrslit og flottar myndir á ifbb.com