Hér á landi er keppt undir formerkjum IFBB í bæði fitness og vaxtarrækt. Keppni hófst fyrir 20 árum síðan í vaxtarrækt á vegum sambandsins en styttra er síðan byrjað var að keppa í fitness. Hjá sambandinu gilda sömu reglur og hjá flestum öðrum íþróttasamböndum varðandi það að keppendum er óheimilt að keppa hjá öðrum samskonar samböndum eða taka þátt í keppnum sem ekki eru viðurkenndar af alþjóðasambandinu. Nokkrir keppendur eru í keppnisbanni hér á landi eftir að hafa keppt í Galaxykeppnum og þykir full ástæða til að árétta hvernig þessum málum er háttað í kjölfar þess að misskilnings virðist gæta meðal keppenda um þessi mál. Hefur því gjarnan verið haldið fram af öðrum keppnishöldurum að þessar reglur séu ekki við lýði hér á landi og því sé keppendum heimilt að keppa hvar sem er hvenær sem er. Þetta gera þeir til þess að hvetja keppendur til að keppa hjá sér.
Ástæðan fyrir þessum reglum hjá flestum íþróttasamböndum er sú að ef þær væru ekki fyrir hendi, myndi hver sem er geta haldið keppni í viðkomandi íþróttagrein og notfært sér þannig keppendur til þess að halda mót og uppákomur án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Þannig myndi sambandið virka sem uppeldisstöð keppenda fyrir mótshaldara sem ekki eru á vegum sambandsins. Ennfremur gæti hver sem er notfært sér það að halda keppnir og mót t.d. stuttu áður en íþróttasambandið heldur sínar keppnir og þannig verið að skaða sambandið með því að hafa af því tekjur og athygli sem ella kæmu frá stuðningsaðilum og áhorfendum. Þannig er þegar til lengri tíma litið fótunum kippt undan öflugum vexti annars vaxandi íþróttagreinar.
Reglur IFBB eru þannig að hafi keppandi keppt einu sinni hjá IFBB og gerst þannig aðili að sambandinu en keppir síðan í fitness- eða vaxtarræktarkeppni sem ekki er viðurkennd af IFBB er litið svo á að hann hafi sagt sig úr sambandinu. Engu skiptir hversu langt er síðan hann keppti fyrst hjá IFBB. Keppandinn á því ekki kost á því að ganga í sambandið aftur fyrr en ákveðinn tími hefur liðið frá því hann keppti á viðkomandi móti. Umboðsmönnum IFBB fitness hér á landi er í sjálfsvald sett hversu langur þessi tími er, en erlendis er miðað við eitt til tvö ár í flestum tilfellum svo sjaldan sem það gerist. Ákveðið hefur verið að þeir keppendur sem hafa brotið gegn þessum reglum komi ekki til með að eiga kost á því að keppa á vegum IFBB í eitt ár frá broti á þessum reglum. Í framtíðinni verður miðað við að þessi tími verði eitt ár. Ætlunin er að fylgja þessum reglum eftir í framtíðinni á þann veg að miðað verði við eitt ár nema sérstakar ástæður séu til annars.
Einar Guðmann og Sigurður Gestsson