Tveir Íslenskir keppendur tóku þátt í þremur mótum fyrir skemmstu
Hilda Allansdóttir keppti í Stokkhólmi á Tyngre Classic sem er opið alþjóðlegt mót þar sem hún náði 6. sæti í sterkum flokki 12 keppenda í bodyfitness. Daginn eftir keppti Hilda síðan aftur á Norðurlandamótinu en á þeim mótum tefla þjóðirnar fram sínu allra besta fólki.
Hilda gerði sér lítið fyrir og náði 4.sæti í frábærum flokki á Norðurlandamótinu. Hún hefur verið að bæta sig gríðarlega undanfarin misseri og tekið stórstígum framförum og við óskum henni innilega til hamingju með árangurinn.
Þá keppti Ana Markovic á hinu árlega serbneska meistaramóti sem haldið var í Novi Sad í norðanverðri Serbíu. Ana tók verðskuldað fjórða sæti í bikinifitnessi, en 13 keppendur voru í flokkinum og því um gríðargóðan árangur að ræða því ríflega 7 milljónir manna búa í Serbíu og fitness-sportið er þar geysilega vinsælt en á mótinu fær takmarkaður fjöldi keppenda að taka þátt.
Ana fór síðan yfir til Bialystok í Austanverðu Póllandi þar sem hún var fulltrúi Íslands á Heimsmeistaramóti IFBB sem fór fram um síðastliðna helgi. Þar komst hún ekki í úrslit í sínum flokki sem var fjölmennasti flokkurinn á mótinu, með 24 keppendum. Hún áætlar að keppa á fleiri alþjóðlegum mótum á þessu keppnistímabili, þar á meðal á heimsbikarmótinu í Úkraínu. Það verður spennandi að fylgjast með, og við óskum henni til hamingju með árangurinn í Serbíu.