Tímaritið Fitnessfréttir er eina tímaritið hér á landi sem fjallar um líkamsrækt og mataræði og er dreift ókeypis í allar æfingastöðvar. Fyrsta eintak Fitnessfrétta kom út árið 1999. Vefurinn fitness.is hóf ennfremur göngu sína um leið og tímaritið.
Fitnessfréttir eru líklega fyrsta ókeypis tímaritið sem gefið var út hér á landi af öðrum en félagasamtökum.
Í dag eru Fitnessfréttir rótgróið og vinsælt tímarit meðal áhugafólks um líkamsrækt og hreyfingu og hefur margoft reynst hafa frumkvæðið að umfjöllun um ýmis mál tengd líkamsrækt, mataræði og heilsu.
Eðlis blaðsins vegna fjalla flestar greinar í Fitnessfréttum um mál tengd vísindarannsóknum og oftar en ekki er verið að fjalla um niðurstöður rannsókna. Fitnessfréttir eru líklega eina tímaritið á þessu sviði hér á landi sem yfirleitt getur heimilda í lok hverrar greinar. Í efnisvali gildir sú meginregla að nýjustu upplýsingar verði lesendum að hagnýtum notum. Gagnavinnsla greinahöfunda byggist ávallt á heimildum og fyllstu fagmennsku er gætt í hvívetna. Engin hagsmuna- né eignatengsl eru við bætiefnafyrirtæki né æfingastöðvar hér á landi önnur en þau að flest bætiefnafyrirtæki og fyrirtæki sem tengjast heilbrigðum lífsháttum sjá sér hag í að auglýsa í Fitnessfréttum. Sérstök athygli er þó vakin á því að undir efnisflokknum „kynningar“ er oft um kynningar á nýjum vöruflokkum eða þjónustu að ræða frá ýmsum söluaðilum og tekur ritstjóri enga ábyrgð á fullyrðingum sem þar koma fram enda um auglýsingar eða kynningar að ræða eins og nafnið gefur til kynna. Ein blaðsíða í hverju blaði fer að jafnaði í umræddar kynningar og ekki fer á milli mála hvort um efni eða auglýsingu er að ræða.