Það eru ekki mörg ár síðan menn urðu eins og gulrætur á litinn við það að nota brúnkukrem. Sum krem eru reyndar ennþá það óvönduð að ekki fer á milli mála að húðliturinn er ekki fenginn á sólarströndu eða eftir heyskap í sveitinni.Vísindamenn eru þó sífellt að þróa brúnkukremin og gætu verið að nálgast það markmið að búa til krem sem gerir húðina fallega brúna, en ekki gula og flekkótta. Húðin bregst við skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar með því að dökkna. Liturinn á rætur að rekja til litarefnis sem nefnist melanín og vísindamenn hafa verið að þróa aðferð til þess að fá húðina til þess að gefa frá sér melanín án þess að verða fyrir útfjólublárri geislun. Það er þessi útfjólubláa geislun sem vísbendingar eru um að valdi húðkrabbameini og ótímabærri hrukkumyndun í húðinni þegar aldurinn færist yfir. Það er því til mikill fjárhagslegur ávinningur í því að finna í senn hrukkukrem og brúnkukrem. Notaðar hafa verið tilraunarottur með ljósu hörundi til þess að þróa þessa aðferð og fjöldi vísindamanna hjá ýmsum fyrirtækjum vinnur að þessum rannsóknum. Það þarf því líklega ekki að bíða lengi eftir því að alvöru brúnkukrem verði fáanleg í verslunum. Þegar að því kemur er engu að síður líklegt að menn þurfi samt sem áður að verja húðina gegn útfjólubláum geislum þegar farið er í sólbað. Þó það sé vissulega umdeilt eru vísbendingar um að útfjólubláir geislar valdi sortuæxlum hættulegustu tegund húðkrabbameins. Heimild: Harvard Health Letter, júlí 2007.