þetta eru óhefðbundin smáráð sem skipta stóru máli. Vertu sterkari, fljótari og fallegri með því að tileinka þér þessi ráð og taktu þeim af hóflegri alvöru. Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara.
1Hættu að verðlauna þig með mat. Við ölumst upp með það foreldravandamál að haldið er upp á minnstu tilefni með mat. Þú ert fullorðin. Hættu þessu.
2 Ekki hlusta á ömmu og mömmu. Þær vilja láta alla klára af diskunum sínum og betla í öllum um að fá sér meira þar til þeir hafa borðað sér til óbóta. Segðu þeim að hitta þig í ræktinni.
3 Drekktu mikið af vatni yfir daginn og stórt glas fyrir máltíð. Til lengri tíma litið skilar það sér í léttingu vegna þess að vatnið verður til þess að þú borðar minna. Blekktu magann fyrir hverja máltíð.
4 Skiptu á einni máltíð og stórri salatskál með fitulausu kjöti til að fá prótín. Það er stór framför í mataræðinu. Þú þarft prótín til að stækka og líka til að viðhalda vöðvamassa.
5 Ekki drekka hitaeiningar. Drykkir sem innihalda sykur innihalda þar af leiðandi hitaeiningar sem oftast eru „tómar“ næringarlausar hitaeiningar. Bjór, gos og ávaxtasafar innihalda hitaeiningar eins og venjulegur matur.
6 Gerðu æfingar sem taka á stóra vöðvahópa eða allan líkamann. Stóru æfingarnar eru hnébeygja, réttstöðulyfta, upptog og armbeygjur. Þær er fyrir þá sem þora. Stórar æfingar taka á stóru vöðvahópana og taka á allan líkamann.
7 Ekki gleyma trefjunum. Trefjar drekka í sig vatn og skipta meltinguna miklu máli. Þú verður laus við hungurtilfinninguna lengur með því að borða trefjar og þær eru farvegur fyrir næringarefni.
8 Hafðu þig í fyrsta sæti. Margir hafa tilhneigingu til að láta alla aðra ganga fyrir. Þú þarft líka að fá þinn göngutúr, komast í ræktina, hitta skemmtilegt fólk og hafa tíma til að elda hollan mat.
9 Finndu flotta vini. Rannsóknir sýna að vinir eru bestu fyrirmyndirnar. Leitaðu í félagsskap þeirra sem vilja stunda líkamsrækt, hlaup og heilbrigða lífshætti. Ekki sýna meðvirkni með leti og lostalífi.
10 Farðu gangandi eða hjólandi þangað sem þú þarft að fara. Notaðu hvert tækifæri til að taka stigann eða rölta á milli staða.
11 Hafðu holla skyndibita tilbúna í ísskápnum. Ef þú getur eytt þúsundköllum í súkkulaði geturðu eytt þeim í jarðarber, vínber eða uppáhalds ávöxtinn.
12 Stattu upp aftur ef þú fellur. Ef þú rankar við þér seint að kvöldi eftir að hafa hámað í þig stærstu pizzuna og meðlæti skaltu byrja upp á nýtt daginn eftir. Þú tapaðir ekki stríðinu, bara einum bardaga sem þú getur bætt upp með góðri æfingu daginn eftir. Reyndar mjög langri, mjög góðri, mjög erfiðri æfingu.