Margar en ekki allar rannsóknir hafa bent til þess að hægt sé að léttast með því að auka hlutfall prótíns í mataræðinu og að ástæðuna megi rekja til minni matarlystar. Spurningin er hinsvegar hvers vegna sumar rannsóknir sýni að prótínneysla hafi engin áhrif á heildar-hitaeininganeyslu né léttingu á meðan flestar sýni að prótínið gerir það? John Bowes við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum og félagar hafa lagt fram þá kenningu að samsetning orkuefnana í rannsóknum verði að vera mjög ólík til þess að hægt sé að sýna fram á raunverulegan mun á niðurstöðum. Kenninguna kalla þeir „prótíndreifingarkenninguna.“ Þeir benda líka á að prótínneyslan verði að vera meiri en viðmiðunarhópurinn er vanur að neyta. Þetta kalla þeir „prótínbreytingakenninguna.“ Túlkun niðurstaðna geti valdið ruglingi meðal vísindamanna sem og leikmanna. Vísindamenn verða því að spyrja réttu spurninganna í rannsóknum sínum til að niðurstöður séu marktækar.
(Nutrition & Metabolism, 9:81, 2012)